11.6.2010 | 04:09
Dagur 8 Nú er nóg komið!
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 60 km
Hvert hjólað: Elma WA - Raymond WA
Í heild hjólað: 500 km
Það þarf ekki að eyða mörgum orðum á þennan dag. Það rigndi allan daginn og mótvindur alla leið. Síðustu daga hefur stytt upp á milli en því var ekki að heilsa í dag. Rigningin var svo mikil að það var ekki einu sinni hægt að stoppa á leiðinni til að borða eitthvað. Reyndar var nánast engin byggð stóran hluta leiðarinnar þannig að það var úr fáu að velja. Hittum hjólreiðamann á sextugsaldri á leiðinni. Hann var frá Vermont og var á sömu leið og við - frá Vancouver til Mexíkó - hafði skilið fjölskylduna eftir heima og var með sáralítinn farangur. " Þetta er kreditkortaferðalag," sagði hann og meinti að tjaldútilegur væru ekki inni í myndinni. Höfum reyndar hitt nokkra aðra hjólreiðamenn sem eru á sömu leið. Vorum ótrúlega blaut þegar við komum til enn eins örbæjarins - Raymond og fundum mótel þar. Erum reyndar orðin sérfræðingar í bandarískum smábæjum og öllum þeim stórkostlegu hlutum sem þeir hafa upp á að bjóða. Á morgun er spáð breytingu - sólin á að láta sjá sig og það á að hitna yfir 20C. Vonum að það standist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.6.2010 | 03:33
Dagur 7 Þetta er bara auðvelt...
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 67 km
Hvert hjólað: Hoodsport WA - Elma WA
Í heild hjólað: 440 km
Dagurinn byrjaði með rigningu sem færðist bara í aukana um leið og við stigum á hjólin í morgun. Við bitum þó á jaxlinn og héldum áfram. Það gekk á með skúrum fyrir hádegi og um hádegi kom skýfall en okkur tókst að forða okkur undir þak fyrir einskæra heppni - það getur nefnilega verið nokkuð langt á milli húsa hér um slóðir...Fyrsta óhapp ferðarinnar verð fljótlega eftir hádegi. Linda hjólaði aftan á hjól Helenu (sem hafði þurft að snögghemla) og féll við. Það er allt annað en þægilegt að detta á hjóli sem vegur tugi kílóa og Linda fékk bólginn fót og smásár út úr öllu saman. Veðrið batnaði þegar leið á daginn og okkur miðaði vel áfram. Höfðum reyndar á orði þegar við komum á leiðarenda, sem var smábærinn Elma, að þetta hefði verið auðveldasta dagleiðin til þessa. Líklega var það vegna þess að fáar brekkur voru á leiðinni - en hins vegar var mótvindur nokkur. Hér í Elma er fátt sem gleður augað nema kjarnorkuver mikið við bæjarmörkin. Matvörubúðin var hálftóm en við fundum þó Subway sem bjargaði kvöldmatnum. Annað kvöld verða tímamót - en þá komum við að Kyrrahafinu og munum að mestu fylgja því að landamærum Mexíkó (ef guð lofar).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2010 | 02:58
Dagur 6 Þriðjudagur - Frídagur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2010 | 05:52
Dagur 5 Hrein martröð!
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 102 km
Hvert hjólað: Port Townsend WA - Hoodsport WA
Í heild hjólað: 373 km
Þessi dagur fer seint í sögubækurnar sem auðveldur. Hlutirnir litu þó vel út í morgun. Veðurspáin ágæt- smáúrkoma til hádegis og síðan sólskin og hiti sá sami og undanfarið, 20C. Lögðum af stað um kl 9 og strax á fyrstu metrunum var brött brekka út úr Port Townsend. Þetta átti eftir að verða létti hlutinn af leiðoinni. Klukkutíma síðar fór að rigna fyrir alvöru - síðan kom skýfall sem varði vel á aðra klukkustund. Við vorum nánast stödd í óbyggðum á þessum tímapunkti - tugi kílómetra frá næsta byggða bóli og því hvergi hægt að komast í skjól. Við urðum því gegnblaut á augabragði og að hjakkast áfram á hjóli sem minnir á risavaxna skjaldböku með allan farangurinn var allt annað en skemmtilegt. Tuttugu kílómetrum og nokkrum óskemmtilegum brekkum síðar stauluðumst við á illan leik inn á lítið veitingahús í smáþorpinu Quilcene og biðum þar næstu tvo tímana meðan það versta gekk yfir. Næst á dagskrá var að paufast upp Mount Walker, ein risavaxin brekka upp fjallið. Helena var farin að finna til í hásinum í fótunum eftir allar brekkurnar og svo fór að rigna aftur....Til að bæta gráu ofan á svart tók Garmininn upp á því, án þess að spyrja leyfis, að lengja leiðina sem við áttum eftir um ca 6 km. "Garmin is evil" tautaði Helena næstu kílómetrana. Næstu klukkustundirnar var hjólað meðfram Hood Canal -vatni sem er tugkílómetra langt. Sprunga kom í aðra hjólagjörðina hjá mér og gat ég því ekki notað afturbremsurnar...Auðvitað rigndi á leiðinni en varð heiðskýrt á því augnabliki sem við komum á leiðarenda - við örþorpið Hoodsport þar sem íbúar eru svo fáir að þetta telst ekki þorp. Þessi hjólatúr tók 10 tíma og við fórum 102 km. Á morgun er frí og auðvitað er spáð sól á morgun og um leið og við stígum á hjólin aftur á miðvikudag á að fara að rigna...
Gegnblaut fyrir utan veitingahúsið í Quilcene
Ein af fáu stundum dagsins þar sem ekki var rigning
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2010 | 05:22
Dagur 4 Þetta mjakast áfram...
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 68 km
Hvert hjóla: Anacortes WA - Port Townsend WA
Í heild hjólað: 271 km
Aftur þungt yfir í morgun og jafnvel rigning með köflum. Ágætis hjólaveður þar sem hitinn var um 20C. Þar að auki hafði sólbruni gert vart við sig í gær og ágætis kæling í rigningunni. Nokkur stirðleiki var kominn í læri eftir átök síðustu daga, en hann hvarf fljótlega. Fórum frá Anacortes um kl 10 í morgun og var ferðinni heitið yfir á Fidalgo eyju og síðan yfir Deception Pass brúna til Whiteby eyju. Fallegt landslag sem naut sín þó engan veginn undir þungbúnum himni. Kílómetrarnir liðu nokkuð fljótt hjá í dag og um kl 15 vorum við komin að höfninni í Keystone, syðst á Whiteby eyju. Tókum ferjuna þar yfir til Port Townsend - hálftíma sigling - þar sem við gistum í nótt. Tíu þúsund manna bær. Langur hjóladagur framundan á morgun og sem betur fer er veðurspáin góð. Nýtt myndaalbúm komið - myndirnar þó ekki sérlega góðar þar sem veðrið bauð ekki upp á góða myndatöku í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2010 | 06:58
Dagur 3 Laugardagur 5. júní
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 58 km
Hvert hjólað: Bellingham WA - Anacortes WA
Í heild hjólað: 203 km
Þetta var sérlega góður hjóladagur. Veðrið var frábært, 20C og glampandi sól - leiðin var ekki síðri. Fórum meðfram strandlengjunni út frá Bellingham og fljótlega tóku við skógi vaxnar hlíðar með sjóinn á aðra hönd og fjöll á hina. Þetta var mjög skemmtileg hjólaleið og greinilega vinsæl hjá öðrum hjólreiðamönnum. Lítið var hins vegar um byggð næstu 20 km. Síðan tók við flatlendi með ökrum þar til við komum í smábæinn Edison. Þar var ágætis bakarí þar sem tilvalið var að borða hádegisverð. Framundan var fjölfarinn þjóðvegur sem tók okkur til Anacortes, lítls sjávarþorps með góðri höfn og fallegum miðbæ. Gistum þar í nótt. Þetta er vinsæll sumarleyfisbær og ber þess merki þrátt fyrir að hér búi aðeins um 14 þúsund manns. Það gekk vel að hjóla þetta. Hér að neðan til vinstri eru myndir í myndaalbúmi frá deginum í dag (klikkið á myndina og þá birtast allar) . Takk fyrir athugasemdir á blogginu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2010 | 05:54
Dagur 2 Föstudagur 4. júní
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 51 km
Hvert hjólað: Blaine WA - Bellingham WA
Í heild hjólað: 145 km
Ákváðum að taka því frekar rólega í dag enda sat þreyta gærdagsins enn í fólki. Smárigning í morgun og því fórum við ekki af stað fyrr en kl 11 þegar fór að rofa til. Hiti var annars um 12C í dag og nokkur gjóla. Ágætis hjólaveður. Fórum fyrst að skoða Birch Bay þjóðgarðinn sem er við samnefndan smábæ og síðan tóku við langir vegir með lítill umferð, með liltum hæðum, huldum háum trjám. Afrekaði það á einum þeirra að hjóla yfir snák sem var á miðjum veginum! Tók ekki eftir honum fyrr en ég fór yfir hann - hefur varla lifað af 100 kg samanlagða þyngd hjólreiðamanns, hjóls og farangurs. Enduðum síðan í Bellingham, enn einum smábænum sem er þó líflegri en margir aðrir. Á morgun á að hlýna - spáð er 20C og sól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2010 | 06:31
Dagur 1 Fimmtudagur 3. júní
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 94 km
Hvert hjólað: Vancouver B.C - Blaine WA
Í heild hjólað: 94 km
Þetta tók nokkuð á. Veðrið var fínt, hiti ca 12-16 C og leiðin skemmtileg. Byrjuðum í miðborg Vancouver og þræddum síðan strandlengjuna umhverfis borgina áður en haldið var suður á bóginn. Hjólin reyndust afar vel en hvert okkar er með ca 8-15 kg af farangri. Töfðumst um 1,5 klst um miðjan dag við neðanjarðagöng undir á þar sem bannað var að hjóla. Í staðinn er boðið upp á fríar ferðir með bíl fyrir hjólreiðamenn um göngin - því miður voru þær aðeins á tveggja tíma fresti og urðum við því að bíða. Kanadamenn eru sérstaklega almennilegir og víða á leiðinni vildi fólk spjalla við okkur og koma með tillögur um hvar best væri að fara. Síðustu 20 kílómetrarnir voru erfiðir þar sem þá þurfti að fara meðfram umferðarþungum hraðbrautum þar sem hávaðinn var mikill. Komum að landamærum Bandaríkjanna um klukkan sjö í kvöld og sem betur fer voru landamæraverðir í óvenju góðu skapi og höfðu mestan áhuga á að spjalla um efnahagsástandið á Íslandi. Rétt við landamærin er smábærinn Blaine og þar komum við á áfangastað rúmum 10 tímum eftir að ferðin hófst í morgun. Sumir voru talsvert þreyttir....
Lagt af stað frá Vancouver í morgun
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2010 | 05:03
Beðið eftir Godot!
Hver fjárinn...hellirigning og rok þegar stóri dagurinn rann upp. Það var varla hundi út sigandi í Vancouver í morgun og langt frá því að vera hin fullkoma byrjun á "epic journey down the Pacific Coast" eins og kaninn kallar þessa hjólaleið. Það var aðeins eitt að gera - krossa fingur og vonast eftir skárra veðri á morgun - það verður ekkert hjólað í dag.
Og það er beðið...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2010 | 04:34
Þetta er náttúrulega rugl...
Hugmyndin var góð í byrjun en svo.....að hjóla rúma 3000 km eftir Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna á tæpum tveimur mánuðum - frá Vancouver í Kanada til landamæra Mexíkó í suðri. Hjólahópurinn var ekki stór en nokkuð öflugur....tveir í honum höfðu varla sest á hjól í tugi ára og sá þriðji átti rykfallið hjól í bílskúrnum.
Og nú var komið að því. Komum til Seattle að kvöldi föstudagsins 28. maí og dagurinn eftir fór allur í að gera hjólin klár fyrir ferðina endalausu. Sunnudagurinn fór síðan í að útvega annan búnað áður en haldið yrði út í óbyggðirnar. Síðdegis á mánudag var farið með rútu til Vancouver. Urðum að taka hjólin í sundur á brautarstöðinni í Seattle þar sem ekki var hægt að flytja þau í heilu lagi til Kanada. Það tókst - þökk sé stórkostlegri verkfræðikunnáttu húsbóndans....Hugmyndin var að leggja af stað í sjálfa hjólaferðina snemma að morgni miðvikudagsins 2. júní.
Hjólabúðin í Seattle
Spurning um jafnvægi
Vel snyrt hótelherbergi
Hjólunum pakkað fyrir rútuferð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)