Draumurinn um Kaliforníu

 

Heildarvegalengd:     2980 km

Hjólað í dag:                    91 km

Hvert hjólað:           Gold Beach OR - Crescent City CA

Hjólað í heild:              1210 km

 

Það er eins og að vera kominn í annað land að fara yfir fylkismörkin frá Oregon til Kaliforníu. Ekki vegna þess að Kalifornía sé svo mikið öðruvísi - heldur vegna þess að það er landamæraeftirlit með tilheyrandi hliðum við fylkismörkin!! Það er þó ekki verið að leita að ólöglegum innflytjendum, hryðjuverkamönnum eða öðru slíku heldur landbúnaðarafurðum sem geta falið í sér smithættu. Landamæraverðirnir - eða öllu heldur landbúnaareftirlitið - hleypti okkur í gegn án þess að leita. Við gátum andað léttar með tvær hálfétnar Subway samlokur með miklu grænmeti og einn banana í töskunum. Vonum að landbúnaði í Kaliforníu verði ekki meint af. Kílómetrarnir 91 flugu hjá í dag - ein löng brekka í byrjun dags skammt frá Gold Beach, Oregon en annars þægilegt að hjóla þetta með mikilli og fallegri sjávar- og strandasýn mest alla leiðina. Sól og hiti og þannig er veðurspáin svo langt sem hún nær. Nú er bara að setja upp sólgleraugun og dusta rykið af brimbrettunum - og muna eftir Beach Boys í Ipodnum...

 

096.jpg

 

 

  Helena og strönd Oregon

 

 

 

 

 

 

093.jpg

 

 

 

 

  Og önnur mynd frá Oregon


Í erfidrykkju með kúrekum

 

Heildarvegalengd:  2980 km

Hjólað í dag:            92 km

Hvert hjólað:         Bandon OR - Gold Beach OR

Hjólað í heild:        1119 km

 

"Þetta er ægilega huggulegur staður. Fullt af fólki með kúrekahatta og svoleiðis," sagði Linda þegar hún hafði stungið nefinu inn um dyrnar á litlum óhrjálegum veigingastað í Port Orford, eina þorpinu sem var á þessari tæplega 100 km leið milli Bandon og Gold Beach. Við létum til leiðast og lögðum hjólin frá okkur og fórum inn með hjólahjálmana á hausnum. Hún hafði rétt fyrir sér. Staðurinn var fullur af kúrekum með hatta og í köflóttum skyrtum. Einn þeirra kom til mín og sagði afsakandi að utanaðkomandi gestir yrðu að sitja í ákveðinni gluggaröð. Ég leit spyrjandi á hann. " Er einhver fundur í gangi," spurði ég og þurrkaði svitann framan úr mér - enda heitt í veðri og sólin skein fyrir utan. "Ekki beint," sagði kúrekinn með sorgarsvip. " Þetta er erfidrykkja. En ykkur er auððvitað velkomið að vera og fá að borða," bætti hann strax við." Einhvern veginn passaði klæðnaðurinn og hjálmarnir ekki við stemmninguna og við hrökkluðumst út. Það var þá sem við tókum eftir myndum sem búið var að hengja upp á veggi af hinum látna. Við fórum yfir götuna en þar var hinn veitingastaðurinn í þessu litla þorpi þar sem örfá hundruð bjuggu. Þar var lítið að gera enda allir þorpsbúar í erfidrykkjunni. Einn eigandinn sagðist síðast í morgun hafa verið að diskútera við félaga sinn eilífðarspurninguna - af hverju heitir Ísland Ísland og Grænland Grænland. Ég útskýrði fyrir honum blekkingarvef gömlu víkinganna.

Fólk heldur gjarnan að vesturströnd bandaríkjanna sé mjög þéttbýl. Því fer fjarri. Maður getur nánast hjólað heilu dagana án þess að koma í svo mikið sem eitt þorp og og oft eru tugir kílómetra milli þess sem maður sér litla sjoppu við vegakantinn. Náttúrufegurðin en hins vegar ótrúleg á leiðinni - drifhvítar strendur, klettar, há tré í fjallshlíðum og dölum og allt þar á milli. Þannig var dagurinn í dag. Við stoppuðum oft til að taka myndir - glampandi sól og hlýtt og lítil umferð. Fórum strandlengjuna út úr Bandon í morgun sem var ægifögur, síðan tóku við engi með bóndabæjum næstu 20-30 km áður en við komum í fyrrnefndan Port Orford. Þar var önnur falleg strönd. Síðustu ca 40 km dagsins voru eins og póstkort - útsýni yfir ströndina oft tugir kílómetra. Komum til Gold Beach (1800 íbúar) tæpum 9 klst eftir að við lögðum af stað. Staðurinn stendur tæplega undir nafni - lítil strönd og ekkert gull sjáanlegt en ágætis bryggja með einum togara við festar. Fáir á ferli á Ellenburg Avenue, aðalgötunni á þessu laugardagskvöldi - tveir strákar spiluðu á gítar á bílaplaninu fyrir framan einu matvöruverslunina í bænum - tvær stelpur hlustuðu á. Það var verið að búa til stemmningu. Í dag, sunnudag, er frídagur hjá okkur. Reyni að setja inn myndir, en bæði er netsambandið lélegt hér og eins er moggabloggið ekki mjög myndavænt.

 

 

 


Að berjast við sjö djöfla!

 

Heildarvegalengd:    2980 km

Hjólað í dag:                  93 km

Hvert hjólað:          Reedsport OR - Bandon OR

Í heild hjólað:           1027 km

 

Heimurinn er lítill. Í dag vorum við að berjast við óendanlegar bekkur á fáförnum fjallavegi sem ber hið þægilega nafn - Seven Devils´s Road - eða Sjö djöfla vegurinn. Stoppuðum við vegamót og þá fór fram úr okku rpar á hjólum og veifuðu. Þarna var komið fólkið sem við mættum í Hoodsport í Washington fylki fyrir 10 dögum eða svo - þau voru frá Nýju Mexíkó á sömu leið og við - að landamærum Mexíkó. Að tilheyra samfélagi hjólamanna hér á vesturströndinno er eins og að vera hluti af sértrúarsöfnuði - allir þekkja alla og kasta kveðju á þá þó að enginn þekki neinn. Stundum er stoppað - rannsakandi augu skoða búnaðinn og hjólin hjá gagnaðilanum og rætt er spekingslega um leiðina. Þetta er hluti af kúltúrnum. Hjólamenn eru líka svolítil númer - sérstaklega ef þeir segjast vera á lang-lang-lang ferð. Þá horfir sauðsvartur almúginn öfundar og aðdáunaraugum á þá. Um daginn gistum við á Mótel 6 í Lincoln. Nokkuð stórt mótel og auðvitað þurfti maður að segja frá hvaða landi maður væri við innritun. Morguninn eftir fór ég fram í kaffistofu að fá mér kaffi - það var við manninn mælt að morgunvaktin var með það á hreinu hvaðan við værum og að við værum á langri hjólaferð. Fyrir utan stórmarkað í Florence kom starfsmaður á plani hlaupandi út og vildi endilega spjalla við okkur um ferðina. Hann var uppalinn í Kalíforníu og heimtaði að við kæmum við í heimabæ hans. Nokkuð vinalegt. Ferðin í dag gekk annars vel - frábært hjólaveður, sól og 16C. Fallegt útsýni meðfram ströndinni í morgun og stóru sandhólarnir fyrir sunnan Florence og Reedsport voru fallegir - margir á fjórhjólum þar. Síðan tók við fyrrnefndur Seven Devil´s Road við North Bend bæinn. Á miðri fjallaleiðinni náðum við því takmarki að hjóla 1000 km í ferðinni. Spurning hvort við verðum eins brosmild eftir næstu 1000 km...

 

 

 

 


Kort af leiðinni

 

Þeir sem vilja skoða leiðina sem við erum að hjóla geta skráð inn á linkinn hér að neðan. Þar er nákvæmt kort af leiðinni og hægt er að fara inn í kortið og skoða það bæ fyrir bæ og götu fyrir götu.

 

www.bikemap.net/route/444689


Að lifa í frumskóginum

 

Heildarvegalengd: 2980 km

Hjólað í dag:           80 km

Hvert hjólað:       Yachats OR - Reedsport OR

Í heild hjólað:        934 km

 

Þættinum hefur borist bréf. Spurt er hvernig gangi að sofa í tjaldi innan um bjarndýr, eiturslögur og önnur dýr merkurinnar. Því er fljotsvarað. Ég hef ekki hugmynd um hvernig gengur að sofa innan um þessa óáran. Í þetta ferðalag var annars farið með þá hugmyndafræði að rétt væri að lifa eins og landnemarnir - í gamladags tjaldi með varðeld á kvöldin og helst að veiða sér til matar. Hingað til hefur enginn matur verið veiddur nema af bakkanum hjá McDonalds. Hingað til hefur enginn þvegið sér í ánni, heldur notaðar dýrindis franskar sápur í bandarskum mótelum og hingað til hefur hefur enginn þurft að dúða sig í teppi til að halda á sér hita á frostköldum nóttum. Við tókum vissulega svefnpoka með okkur út - en þeir hafa fyrst og fremst verið notaðir ofan á dúnmjúkum rúmum. Ástæður þessa eru í sjálfu sér einfaldar. Við erum á hjólunum 7-8 tíma á dag og í lok hvers dags er lítil orka eftir til að stunda frumskógaleiki. Sé ekki að það sé að breytast í bráð. Dagurinn í dag var annars góður til hjólreiða. Glampandi sól og 15C - ótrúlegt útsýni yfir hvítar strendur Oregon á milli þess sem öflugar brekkur fengu okkur til að svitna. Fórum í gegnum Florence (ekki á Ítalíu) þar sem risastórar sandöldur eru orðnar meirháttar túristaatvinnuvegur. Heimamenn leigja út fjórhjól og önnur farartæki til túrista sem spæna upp sandinn. Svo þarf ég að skrifa sérgrein síðar um áhuga Bandaríkjamanna á vitum - tugir þeirra stóðu við úrsýnispall í dag og góndu með aðdáunarsvip á einn slíkan í fjarlægð. Gefnar eru út heilu bækurnar um vita Oregon og seldur er aðgangur að þeim - eitthvað sem Vita og hafnamálastofnun heima ætti að hugleiða.


Ekki ein á ferð!

 

Heildarvegalengd: 2980 km

Hjólað í dag:           83 km

Hvert hjólað:       Lincoln City OR - Yachats OR

Í heild hjólað:        854 km

 

Maður er aldrei einn á ferð. Því höfum við kynnnst að undanförnu. Þannig mætum við hjólreiðamönnum daglega sem eru að fara lengri eða skemmri vegalengdir. Þeir fyrstu í dag fóru fram úr okkur strax í Lincoln City í morgun. Við náðum þeim skömmu síðar. Í ljós kom að þau voru í vikuferð niður strönd Oregon - ætluðu að enda ferðina í Florence eftir tvo daga. Skammt undan var hávaxinn, skeggjaður, brosmildur náungi á sextugsaldri sem sagðist vera frá San Francisco. Gleymdi að spyrja hann hvað hann væri að fara langt en við sáum hann öðru hverju næstu 20 kílómetrana. Hann veifaði okkur ætíð, greinilega í miklu stuði. Svo eru það hinir sem við mætum - t.d gömlu hjónin sem fóru að ræða við okkur snemma í morgun á gangstétt í Lincon. Þau voru áhugasöm um ferðina og enduðu á að bjóða okkur fría gistingu í sumarbústað sínum við sjóinn í Lincoln - því miður vorum við að yfirgefa borgina og gátum ekki þegið þetta góða boð. Daglega víkja sér eitthverjir að okkur og fara að spyrja út í ferðina og hvaðan við séum. Allir fara að ræða um eldfjallið ógurlega á Íslandi og finnst það stórfurðulegt að við skulum hafa lagt í þessa löngu ferð. Stelpan í afgreiðslunni á mótelinu hér í Yachats fær síðasta orðið núna í kvöld: " Hvað í ósköpunum eruð þið að gera hér komandi frá svona fallegu landi eins og Íslandi?" Það liggur við að maður gleymi því að Jón Gnarr sé orðinn borgarstjóri og Dr. Gunni formaður Strætó þegar maður heyrir þessi orð...


Eiginlega er ekkert bratt...

 

Heildarvegalengd:   2980 km

Hjólað í dag:             66 km

Hvert hjólað í dag:  Netarts OR - Lincoln City OR

Í heild hjólað:          771 km

 

"Eiginlega er ekkert bratt, aðeins misjafnlega flatt." Mér datt þessi orð skáldsins og frænda míns í hug þegar við paufuðumst upp aðra af tveimur löngu brekkum dagsins. Lengri verða brekkurnar ekki á vegi okkar í Oregon og því var auðvitað tilvalið að hafa þær báðar á sama degi.  Fórum frá Netarts snemma í morgun eftir að ég hafði beðið móteleigandann afsökunar á að hafa mölvað loftljós hjá honum (var að lyfta einu hjólanna upp í herberginu með þeim afleiðingumð gleri rigndi yfir næsta nágrenni). Hann sagði að þetta væri ekkert mál, enda væru menn alltaf að brjóta ljós hjá honum...Nú er Linda búin að tengja púls og kaloríumæli við sig þannig hún getur reiknað nákvæmlega út hvað hún má borða marga BigMac á dag án þess að fitna (þeir eru ekki mjög margir). Komum til Lincoln City síðdegis- hér búa um 7000 manns - stórborg á okkar mælikvarða og langstærsti bærinn sem við höfum komið til síðan við vorum í Astoria. Þetta er eins og að vera kominn til New York - öll helstu þægindi nútímamannsins við hendina. Höldum aftur út í eyðímörkina á morgun - eða eigum við heldur að segja þjóðveg 101 með öllum litlu strandbæjunum. Hitinn á ekki að vera nema 12C - vantar ullarvettlinga.

 

 


Áfram gakk (eða áfram hjól)

 

Heildarvegalengd:  2980 km

Hjólað í dag:            56 km

Hvert hjólað:         Manzanita OR - Netarts OR

Í heild hjólað:         705 km

 

Þetta var nokkuð þægilegur dagur. Skottuðumst þetta áfram til Netarts í skýjuðu veðri og ca 17C. Þetta var nokkuð þægileg leið, engar stórar brekkur en margar litlar. Umferðin var nokkuð mikil á þjóðvegi 101, enda sunnudagur og margir að fara heim frá ströndinni. Nokkur þoka var við ströndina og því var útsýnið ekkert sérstakt stóran hluta ferðarinnar. Hreinsuðum hjólin í gærkvöldi en þau voru orðin grútskítug eftir rigningarvolkið í Washington. Fundum lítið mótel við ströndina í Netarts og erum með útsýni út á Kyrrahafið. Ströndin hér er líka falleg en bærinn telur nokkur hundruð íbúa. Eina matvöruverslunin í bænum, sem er pínulítil tekur á öllu mögulegu - selur matvöru, áfengi, gjafavöru, lifandi krabba í kvöldverð og er videoleiga og grill - geri aðrir betur. Á morgun er frídagur og þá er hægt að einbeita sér að meira áríðandi hlutum en hjólreiðum - HM í fótbolta!

 


Meðfram ströndinni

 

Heildavegalengd: 2980 km

Hjólað í dag:           63 km

Hvert hjólað:        Astoria OR - Manzanita OR

Í heild hjólað:        649 km

 

Ferðin hefur tekið breytingum. Núna er hjólað nánst beint í suðurátt meðfram ótrúlega fallegri strönd Oregon. Ef ekki væru margar erfiðar brekkur þá væri þetta fullkomið. Loksins kom sólin í dag og 20C. Svipuð spá næstu daga. Stoppuðum í hjólabúð í bænum Seaview til að kaupa aukahluti og síðan var haldið til Cannon Beach, sem er afar fallegur bær með stórum drifhvítum ströndum. Það voru margir bílar á ferli meðfram þjóðvegi 101 sem við hjólum eftir, enda laugardagur og vinsælt hjá íbúum Portlands, sem er aðeins í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð að koma niður að strönd um helgar í góðu veðri. Þurftum að fara í gegnum stutt jarðgöng í dag - frekar erfitt þar sem ekki er gert ráð fyrir hjólum í þeim - þó er kveikt á viðvörunarljósum þegar hjól fara inn í þau en það hægði lítið á bílum sem  streymdu framhjá. Stór, stór brekka á síðasta kafla ferðarinnar með miklu útsýni yfir strendurnar í suðri, en fólk var orðið talsvert þreytt þegar komið var til Manzanita undir kvöld. Þökkum aftur þeim sem hafa sent athugasemdir eða skrifað í gestabók - haldið þessu endilega áfram 


Dagur 9 Tímamót!

 

Heildarvegalengd:   2980 km

Hjólað í dag:               86 km

Hvert hjólað:          Raymond WA - Astoria OR

Í heild hjólað:            586 km

 

Já, ákveðin tímamót í dag. Kláruðum Washington fylki og erum komin til Oregon. Þetta gekk ansi vel í dag. Veðrið var flott, skýjað en 17C. Leiðin var bein og lítið um brekkur og kílómetrarnir flugu hjá þó að maður sé á risaskjaldböku (hjólinu). Fötin voru enn blaut eftir hrakninga gærdagsins og þurfti undirritaður að fara í plastpoka áður en hann fór í blauta strigaskóna. "Athyglisverður fótabúnaður," sagði glottandi afgreiðslustelpa í lítilli sjoppu á leiðinni. Ég nennti ekki að útskýra hlutina fyrir henni. Um miðjan dag sáum við hina ógnarstóru brú sem skilur að Washington og Oregon - Astoria brúna sem liggur eins og risaeðla yfir samnefndum bæ Oregon megin við Columbia ána. Brúin sjálf var ekki árennileg - 7 km löng og engar axlir fyrir hjólafólk. Ráðleggingar sem hjólabækur gefa fyrir hjólafólk eru þessar: Hjólið hratt, lítið ekki um öxl og stoppið alls ekki á leiðinni. Engin ef þessum ráðleggingum er gáfuleg. Bílar fara hratt framhjá í nokkurra sentimetra fjarlægð þannig að það er ekki hægt að hjóla hratt, maður verður að líta um öxl til að varast stóra trukka og það er erfitt að hjóla langa leið upp í móti án þess að stoppa. En þetta hafðist og við vorum enn lifandi þegar við komum til Oregon. Og svo er það rúsínan í pylsuendanum - spáð er 22 stiga hita og glampandi sól á morgun! Við hljótum að eiga þetta skilið!

 astoria_bridge

 Astoria brúin er engin smásmíði

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband