17.7.2010 | 06:11
Af sljóleika og hermönnum
Heildarvegalengd: 2920 km
Hjólað í dag: 96 km
Hvert hjólað: Newport Beach CA - Carlsbad CA
Hjólað í heild: 2838 km
Þegar fólk á níræðisaldri hjólar fram úr manni þrátt fyrir góða tilburði þá veit maður að eitthvað er að. Og þegar aðrir hjólreiðamenn stoppa til að spyrja hvaðan við séum að koma og hvert við séum að fara - og við munum hvorugt - þá veit maður að eitthvað er að. Þannig má segja að fólk verði eftir rúma 2800 kílómetra. Þetta getur hreinlega orðið vandræðalegt þegar best lætur.
Dagurinn var annars fínn. Sól og hiti, nóg af fallegum yfirfullum ströndum, eitt ekkert sérstaklega fallegt kjarnorkuver og ferð í gegnum stóra herstöð. Fyrst í morgun voru það strendurnar, meðal annars Laguna Beach, en samnefndir sjónvarpsþættir þóttu flottir í eina tíð. Þröngir hjólreiðastígar tóku síðan við áður en komið var að stóru kjarnorkuveri þar sem hjólað var framhjá. Enn einn hjólastígurinn tók við næstu 10 kílómetrana og síðan var það Pendleton herstöðin. Hjólafólk má ekki hjóla á hraðbrautum (interstate vegum) í þessu landi og þar sem Pendleton herstöðin náði yfir stórt svæði allt í kringum hraðbrautina þá var ekki annað að gera en að fara í gegnum sjálfa stöðina. Við vorum auðvitað stoppuð við hliðið af vopnuðum hermönnum sem kröfðust þess að sjá vegabréfin, en um leið og þeir sáu að við vorum frá landinu þar sem Gnarrenburg er þá slepptu þeir okkur í gegn. Herstöðin sjálf var vonbrigði. Engir vígalegir hermenn sjáanlegir, hvað þá skriðdrekar eða önnur stríðstól. Við hjóluðum um 15 km í sjálfri stöðinni og minnti landslagið helst á eyðimörk. Það var heitt og vorum við fegin að losna út og komast til borgarinnar Oceanside - þar fórum við meðfram ströndinni áður en haldið var til Carlsbad, sem er enn einn baðstrandarbærinn. Á morgun eru tímamót - þá stormum við í gegnum San Diego og til landamæra Mexíkó þar sem þessi hjólreiðaferð endar. Tæpir 3000 km á tæpum einum og hálfum mánuði. Nánar um það og uppgjör á morgun.
Athugasemdir
Gangi ykkur vel á lokakaflanum, hlakka til að fá ferðasöguna þegar þið komið heim.
Hlynur (IP-tala skráð) 17.7.2010 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.