Slysin gera ekki boð á undan sér...

Heildarvegalengd:  2920 km

Hjólað í dag:                98 km

Hvert hjólað:       Santa Monica CA - Newport Beach CA

Hjólað í heild:          2742 km

 

Veðurfréttamaðurinn í sjónavarpinu tilkynnti í morgun að best væri fyrir heimamenn í Los Angeles að halda sig innadyra í dag - enda væri spáð mesta hita ársins, um 40C. Við fórum að sjálfsögðu ekki eftir þeim ráðleggingum, enda ekki heimamenn. Dagurinn fór í að komast í gegnum Los Angeles. Fyrstu 30 kílómetrana eða svo fórum við á hjólabraut á miðri ströndinni - framhjá Santa Monica ströndinni, Venica ströndinni, Manhattan ströndinni og Hermosa ströndinni. Það var andvari af hafi þannig að þetta var bærilegt. Við Retondo ströndina neyddumst við til að hjóla inn í borgina næstu 25 kílómetrana eða svo. Við höfðum á orði að það væri ekki svo erfitt að hjóla í gegnum Los Angeles....en við hefðum betur sleppt því. Helena var að fara yfir á umferðarþungum gatnamótum þegar hún festi annað dekkið á hjólinu í sporvagnaförum sem liggja víða niður úr malbikinu. Hún datt til hliðar, beint á veginn og fékk hjólið yfir sig. Fyrir einhverja mikla mildi var ökumaður sem fór óvenju hægt fyrir aftan hana og hann gat með naumindum sveigt til hliðar og afstýrt stórslysi. Starfsmaður á veitingastað hinum megin við götuna kom hlaupandi yfir til að athuga hvort allt væri í lagi. Hann sagði að fyrir nokkum árum hefði annar hjólareiðamaður fest dekk á sama stað og dottið. Stór trukkur fór yfir höfuðið á honum og þar þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Helena var lemstruð eftir þetta, fann mikið til í fætinum og var blá og marin. Af alkunnu örlæti hjólreiðamanna fékk hún heilar 15 mínútur til að jafna sig og síðan var haldið áfram. Leiðin lá eftir ca 10 km löngum hjólreiðastíg niður á Long Beach - eða Langasand. Þar tók annar stígur við allt þar til við vorum formlega komin út fyrir borgarmörkin. Hjólað var meðfram endalausum hvítum ströndum með óteljandi sólbrúnum Kaliforníubúum allt þar til við komum til Newport Beach síðdegis. Þetta gekk frekar hægt í dag, enda erfitt að hjóla í gengum það flæmi sem Los Angeles er - maður þarf endalaust að stoppa og passa sig á að hjóla ekki einhvern niður - eða lenda í því sjálfur...Og svona að lokum - heildarvegalengdin hefur verið endurskoðuð miðað við nýjustu gervihnattaupplýsingar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband