15.7.2010 | 05:46
Tvisvar á sama degi!! Er það ekki fullmikið?
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 151 km
Hvert hjólað: Santa Barbara CA - Santa Monica, Los Angeles CA
Hjólað í heild: 2644 km
Úff. Hvar skal byrja. Dagurinn var langur.....lagt af stað kl 07 í morgun frá Santa Barbara og komið til Los Angeles kl 20 í kvöld. Hitinn var aðeins minni en í gær en samt var mjög heitt og sólin skein sem aldrei fyrr. Fórum meðfram gullfallegri ströndinni í Santa Barbara í morgunskímunni og síðan í gegnum Summerland og Carpentania, tvo litla bæi við ströndina. Landslagið hér í suður Kaliforníu er ólíkt því sem er norðar - minna um há tré en meira um þurran jarðveg og lágvaxinn gróður. Víða með ströndinni ná klettarnir langt fram. Mikið er um fólk með risavaxna húsbíla sína á þessum slóðum og er þeim gjarnan lagt í endalausum röðum meðfram ströndinni. Við komum í tvo fallega bæi rétt fyrir hádegi, Ventura og Oxnard. Hjóluðum þar meðfram ströndinni og í Ventura sprakk óvænt á hjólinu hjá Helenu - í fyrsta skipti sem dekk springur í allri ferðinni. Við vorum stödd í miðju ibúðahverfi þegar þetta gerðist og var ekki annað að gera en að bjarga málunum. Áfram hélt ferðin eftir þessa töf og næstu 50 kílómetrana eða svo var hjólað meðfram ægifagurri ströndinni áður en komið var til Malibu síðdegis. Þó að Hollywood stjörnur haldi þar gjarnan til gaf engin þeirra sig fram við okkur. Áfram var haldið meðfram strandlengjunni og til Santa Monica, sem er úthverfi Los Angeles. Komum þangað um kl 19 - mjög hægt gekk að hjóla inn í sjálfa borgina vegna umferðar og tók það okkur klukkutíma að komast örfáa kílómetra. Og þá gerðist það ótrúlega - aftur sprakk á dekki!!!! Núna var það hjá mér og þar sem við vorum á miðju breiðstræti í Los Angeles og aðeins 500 metrar á hótelið þá nennti ég ekki að fara að standa í dekkjaviðgerðum á því augnabliki og leiddi hjólið síðustu metrana. Við vorum hálf rænulaus af þreytu þegar við komum á hótelið og ekki annað að gera en að hringja eftir Dominos pizzu og fá hana senda fyrir svefninn.
Gert við hjólið í Ventura
Helena í Malibu
Þreytt í Santa Monica, LA í kvöld
Athugasemdir
Þið eruð ótrúleg :) Alltaf jafn gaman að lesa bloggið ykkar og nær ómissandi að kíkja á síðuna ykkar fyrir svefninn til að kanna hvort eitthvað nýtt sé komið inn. Gangi ykkur vel síðasta spölinn. Kveðja, Súsanna
Súsanna (IP-tala skráð) 15.7.2010 kl. 23:04
Hrikalega flott hjá ykkur. hjólaði sjálfur 4km í dag!!!
kv
Doddi
Doddi (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 00:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.