14.7.2010 | 05:41
Some like it hot!
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 94 km
Hvert hjólað: Lompoc CA - Santa Barbara CA
Hjólað í heild: 2493 km
Það var heitt í dag - heitasti dagurinn okkar í ferðinni til þessa. Við fundum það um leið og við stigum á hjólin í Lompoc í morgun og hitinn átti bara eftir að aukast með hækkandi sól. Fyrstu 35 kílómetrarnir voru um fáfarinn dal sem kenndur er við Lompoc. Landslagið minnti helst á eyðimörk - greinilegt að þarna hafði ekki rignt lengi. Kortið sagði okkur að 1000 feta brekka væri þarna en í ljós kom að öll leiðin um dalinn var hægt og bítandi upp á við þannig að við fundum ekki svo mikið fyrir aukinni hæð. Vatnabirgðirnar fóru hins vegar þverrandi því á allri þessari leið var ekki svo mikið sem einn kofi. Eftir 40 km fórum við aftur að sjónum og umferðin jókst til muna en hitastigið lækkaði lítið - var um 30C. Engin þjónusta eða hús heldur næstu 70 km. Það var ekki fyrr en við komum í úthverfi Santa Barbara sem hægt var að kaupa drykk og ekki vanþörf á. Fórum fallegan hjólastíg ca 20 km í gegnum borgina, framhjá Kalíforníuháskóla, meðfram ströndinni og síðan upp í miðborg. Þetta var gullfalleg leið, skreytt pálmatrjám og öðrum gróðri. Santa Barbara er með fallegri borgum á vesturströnd Bandaríkjanna, það er ekki spurning. Þufum að vakna snemma á morgun - langur dagur framundan.
Á hjólastígnum í Santa Barbara
Athugasemdir
Koma svo áfram Helena, Linda og Kalli! Algjörar hetjur!
Hildur Loftsdóttir (IP-tala skráð) 14.7.2010 kl. 23:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.