5.7.2010 | 03:49
Djöflaskriður á þjóðhátíð
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 51 km
Hvert hjólað: San Francisco CA - Half Moon Bay CA
Hjólað í heild: 1920 km
Heilir tveir dagar í fríi í San Francisco - maður var farinn að sakna hjólsins! Að velja 4. júlí, sjálfan þjóðhátíðardaginn, til að setjast á stálfákinn að nýju var hins vegar kannski ekki besta hugmyndin. Umferðin út úr borginni var talsverð og jókst eftir því sem sunnar dró. Fórum meðfram ströndinni í gegnum Daly City og Pacifica og þar voru bæði vegir og strendur pakkaðar af fólki sem vildi njóta dagsins úti við. Nokkur hliðarvindur var í dag og gerði það hjólreiðarnar aðeins erfiðari. Bandaríkjamen hafa þann ágæta sið að nefna alla varhugaverða vegi eftir djöflinum - fyrr í ferðinni forum við um Sjö djöfla veginn og í dag var komið að Djöflaskriðum - Devil´s slide - fyrir sunnan Granada. Þetta er í raun snarbrött fjallshlíð með þröngum vegi - umferðin var mikil um skriðurnar, engar axlir til að hjóla á og við því í stöðugri hættu. Til að gera hlutina verri er mjög msvindasamt þarna uppi og komu miklar hviður - þannig urðum við í eitt skiptið að fara af hjólum og leiða þau stuttan spöl til að koma hreinlega í veg fyrir að fjúka ofan í fjöru! Þetta hafðist þó allt saman og við komum til Hálfmánaflóa - Half Moon Bay síðdegis. Lengri hjóladagur framundan á morgun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.