1.7.2010 | 14:30
75 ára á fullu
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 92 km
Hvert hjólað: Gualala CA - Valley Ford CA
Hjólað í heild: 1765 km
Nei, ég er ekki að tala um sjálfan mig í fyrirsögn, heldur náungann sem sat á barnum á Valley Ford hótelinu í samnefndum smábæ í kvöld. Hann var að hjóla ásamt tveimur félögum sínum frá Portland, Oregon til San Francisco - alls um 1000 km. Konan hans fylgdi síðan með í bíl til öryggis. Þetta var kvikur og glaðvær náungi og leit ekki út fyrir að vera deginum eldri en sextugur. Það er greinilega allt hægt með smá vilja.
Ferðin frá Gualala til Valley Ford einkenndist af miklum vindi, bröttum hlíðum meðfram sjónum og talsvert mörgum hæðum. Vindurinn var sem betur fer í bakið. Sunnan við Gualala tóku við sumarhúsabyggðið meðfram Kyrrahafinu og síðan brattar hlíðar frá og með Fort Ross þar sem nauðsynlegt var að hjóla varlega, enda engar axlir til að hjóla á og því þurfti að deila veginum með bílum. Útsýnið var hins vegar stórfenglegt. Stundum fannst manni eins og maður væri staddur í vestfirskum fjallahlíðum, stundum í Skorradal og stundum eins verið væri að hjóla meðfram austfirskri strandlengju - fjölbreytnin var mikil. Mjög lítið var um byggð á þessari rúmlega 90 km löngu leið, stoppuðum í fallegri krambúð í Stewarts Point og síðan örstutt í Bodega Bay áður en við héldum áfram til Valley Ford - sem er örþorp með um 100 íbúa uppi í sveit. Hér hefur ungur maður um þrítugt byggt upp hótel af miklum myndarskap. Trompið er hins vegar veitingasalurinn hjá honum - ótrúlegur matur. Það er bara opið þar fjögur kvöld í viku og í gærkvöldi var troðfullt - held að allir þorpsbúar hafi verið það samakomnir. Tvær konur á níræðisaldri sátu við barinn, borðuðu makkarónur í osti og vldu endilega vita hvort ég læsi ekki sögur Stieg Larssons - þær væru æðislegar!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.