30.6.2010 | 05:30
Súper Maríó bróðir gerist kvensamur
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 94 km
Hvert hjólað: Fort Bragg CA - Guelala CA
Hjólað í heild: 1673 km
"Mikið ertu falleg," drafaði Súper Maríó bróðirinn í fimmta sinn í kvöld um leið og hann leit á Lindu. "Skilur hún annars nokkuð hvað ég er að segja," sagði hann svo við mig. Súper Maríó, sem ég kalla svo vegna þess að hann líktist samnefndri teiknimyndahetju, var í raun pizzuveitingastaðaeigandi í Gualala - smábæ með um 150 manns. Hann hafði komið víða við á langri lífsleið - barðist í Víetnam stríðinu og starfaði svo lengi fyrir Bandaríkjaher við hönnun á geimstöðvum, auk þess em hann kom að smíði hins risavaxna Hubber sjónauka. Eftir farsælan starfsferil snéri hann til Guelala og opnaði pizzastað. Núna var hann þakinn hveiti, rallhálfur á bak við afgreiðsluborið og skipaði ungri stelpu fyrir verkum. Klukkan 8 í kvöld var hann búinn að fá nóg og skipaði henni að loka staðnum. Hún var ekki nógu snögg að loka hurðinni og inn snaraðist brosmild kona sem sagði með afsaknadi svip að hún væri með sjö svanga munna fyrir utan. Víetnam stríðsmaðurinn var hinn fúlasti og urraði að hann væri að loka. Afgreiðslustelpan fékk að búa til nokkrar pizzur í refsingarskyni á meðan húsbóndinn hélt áfram að tala við mig.
Leiðin í dag var annars þægileg og falleg. Við hjóluðum meðfram ströndinni þessa 94 kílómetra og komum við í nokkrum smábæjum. Elk var þeirra fallegastur, gömul velviðhaldin hús við nánast einu götu bæjarins. Veðrið var fullkomið, glampandi sól og 20C. Kaliforníuströnd skartaði sínu fegursta og kílómetrarnir flugu hjá. Ekki skemmdi fyrir að lítið var um langar brekkur. Síðdegis hjóluðum við fram úr hjólamanni á langferð sem hafði slitið keðjuna og var ekki viss um hvernig ætti að festa hana aftur. Hann gat lært af hjólunum okkar og þakkaði okkur vel fyrir.
Við Mendocino í morgun
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.