Býr Nói Albínói hér?

 

Heildarvegalengd:      2980 km

Hjólað í dag:                    84 km

Hvert hjólað:            Leggett CA - Fort Bragg CA

Hjólað í heild:              1579 km

 

Það var ljóst frá byrjun að þetta yrði ekki auðveldur dagur. Hann hófst á hinni alræmdu Leggett brekku sem hafði skelft okkur í marga daga. Það var ekki nóg með að fólk talaði um hana með óttablandinni virðingu heldur var líka horft á okkur með vorkunnsemi. Konan í afgreiðslunni á Best Western í Garberville tilkynnti að við yrðum að fá besta herbergið á hótelinu þar sem við þyrftum á öllum okkar kröftum að halda fyrir hæðina góðu. Vertinn á Pegs Inn - frægu kaffihúsi úti í miðjum skógi rétt hjá hæðinni - afgreiddi Lindu og Helenu með súkkulaðiköku í morgun með þeim orðum að eftir að hafa snætt hana yrði hæðin lítið mál. Hæðin sjálf eru m 2000 feta há - byrjaði rólega og við hjóluðum áfram 20 - 30 km án þess að verða sérstaklega vör við hana. Svo var draumurinn úti - brekkan byrjaði og það tok okkur 2-3 klukkustundir að paufast upp hana í 32C hita og glampandi sól. Útsýnið var ekki mikið þar sem tréin huldu dali og Kyrrahafið fyrir neðan okkur. Þegar toppnum var náð var brekkan niður niður að sjó hinum megin þægileg og allt af fljótfarin.

Eina þorpið á þessari 84 km leið í dag var Westport en þar búa um 100 hræður. Ævagömul búð - eða frekar sjoppa - er við aðalgötuna. Þar var mun meira úrval af vínum og bjór en öðrum drykkjum eins og vera ber í öllum beti búðum. Eldri kona, sem leit út eins og umrenningur, kom inn í sjoppuna. Hún spurði hvaðan við værum. Augun stækkuðu þegar hún heyrði svarið og loks stundi hún út úr sér: " Nói." Við kváðum og hún sagðist hafa verið að horfa á myndina um Nóa Albínóa. Bara vegna þess að hún hafði verið svo forvitin um landið.

Skammt frá Westport voru fallegar fjörur og þar safnaðist fólk saman í góða veðrinu til að veiða skeldýr. Gaman að stoppa og horfa á það. " Ótrúlegt," kallaði ungur maður, sem leit út fyrir að vera þýskur nýnasisti, þegar hann heyrði að við vorum búin að hjóla frá Kanada. Hann kallaði á félaga sína sem horfðu á okkur eins og geimverur.  Skammt frá voru önnur ungmenni búin að koma sér vel fyrir aftan á pallbíl með tunnu af bjór. Leit vel út eftir 60 km puð á hjólinu í hitanum.

Komum til Fort Bragg eftir að hafa hjólað í um 9 klukkustundir. Þetta er ekki herstöð þó að nafnið gefi það til kynna - heldur 7000 manna bær - sá langstærsti á stóru svæði. Upphaflega var þetta þó herstöð - sett upp til að berjast við índíána á svæðinu. Tökum frídag hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband