23.6.2010 | 05:42
Erfitt...
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 66 km
Hvert hjólað: Crescent City CA - Orick CA
Hjólað í heild: 1276 km
Þetta var einn erfiðasti dagur ferðarinnar til þessa. Ástæðan var fyrst og fremst sú að við þurftum að hjóla næst hæstu og þriðju hæstu brekkur allrar strandarinnar - á einum og sama deginum. Fyrri brekkan, og sú hærri, byrjaði nánast strax og við komum út úr Crescent City í morgun. Hún var 15 km á lengd og stanslaust upp í móti - vorum um tvo tíma að skrölta þetta. Fegurðin bætti erfiðið upp. Við erum nefnilega komn í rauðviðarskóga Kaliforníu - þá stærstu og elstu í heiminum. Hæstu tréin eru um 2000 ára gömul, eru talsvert hærri en Hallgrímskirkja og bolirnir eru allt að sjö metrar á þvermál. Set myndir inn á morgun þegar ég kemst í betra netsamband. Það var ótrúlega gaman að hjóla um þessa þéttu skóga og þeir eru ekki búnir því næstu dagar verða svipaðir. Vorum rétt að byrja að jafna okkur á brekku númer eitt þegar sú síðari byrjaði í dag. Það tók því eilífðar tíma að komast þessa 66 km og nánst engin þorp voru á leiðinni. Umferðin var þó mikil og vegirnir þröngir þannig að hjólamenn eru í sífelldri lífshættu. Komum undir kvöld til Orick - íbúafjöldi um 600. Þetta hlýtur að vera eitt mesta eymdarþorp á vesturströnd Bandaríkjanna. Hér er nákvæmlega ekkert nema mótelið sem við erum á - sem hefur sennilega ekkert breyst í 500 ár. Á stóru skilti fyrir utan mótelið er helstu trompunum flaggað - litasjónvarp og sími á staðnum, stendur þar stórum stöfum. Það verður ekki betra...
Athugasemdir
Þið eruð HETJUR! Knús úr hitanum í Hafnarfirðinum (bara sólbruni og brúnka eftir daginn)
Þórunn
Þórunn (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 23:31
Frábær ferðasaga og gaman að fara ferðina með ykkur með lestri hennar - takk fyrir aðganginn að síðunni ykkar. Bestu kveðjur úr firðinum. Sigga Kristjáns.
Sigríður Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 10:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.