Að berjast við sjö djöfla!

 

Heildarvegalengd:    2980 km

Hjólað í dag:                  93 km

Hvert hjólað:          Reedsport OR - Bandon OR

Í heild hjólað:           1027 km

 

Heimurinn er lítill. Í dag vorum við að berjast við óendanlegar bekkur á fáförnum fjallavegi sem ber hið þægilega nafn - Seven Devils´s Road - eða Sjö djöfla vegurinn. Stoppuðum við vegamót og þá fór fram úr okku rpar á hjólum og veifuðu. Þarna var komið fólkið sem við mættum í Hoodsport í Washington fylki fyrir 10 dögum eða svo - þau voru frá Nýju Mexíkó á sömu leið og við - að landamærum Mexíkó. Að tilheyra samfélagi hjólamanna hér á vesturströndinno er eins og að vera hluti af sértrúarsöfnuði - allir þekkja alla og kasta kveðju á þá þó að enginn þekki neinn. Stundum er stoppað - rannsakandi augu skoða búnaðinn og hjólin hjá gagnaðilanum og rætt er spekingslega um leiðina. Þetta er hluti af kúltúrnum. Hjólamenn eru líka svolítil númer - sérstaklega ef þeir segjast vera á lang-lang-lang ferð. Þá horfir sauðsvartur almúginn öfundar og aðdáunaraugum á þá. Um daginn gistum við á Mótel 6 í Lincoln. Nokkuð stórt mótel og auðvitað þurfti maður að segja frá hvaða landi maður væri við innritun. Morguninn eftir fór ég fram í kaffistofu að fá mér kaffi - það var við manninn mælt að morgunvaktin var með það á hreinu hvaðan við værum og að við værum á langri hjólaferð. Fyrir utan stórmarkað í Florence kom starfsmaður á plani hlaupandi út og vildi endilega spjalla við okkur um ferðina. Hann var uppalinn í Kalíforníu og heimtaði að við kæmum við í heimabæ hans. Nokkuð vinalegt. Ferðin í dag gekk annars vel - frábært hjólaveður, sól og 16C. Fallegt útsýni meðfram ströndinni í morgun og stóru sandhólarnir fyrir sunnan Florence og Reedsport voru fallegir - margir á fjórhjólum þar. Síðan tók við fyrrnefndur Seven Devil´s Road við North Bend bæinn. Á miðri fjallaleiðinni náðum við því takmarki að hjóla 1000 km í ferðinni. Spurning hvort við verðum eins brosmild eftir næstu 1000 km...

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir stelpuna, Steinar kom í afmælið og var rosa flottur eins og alltaf. Svo kíkti frænka náttúrlega á hann spila á 17.júní það var ótrúlega flott hjá strákunum. Til hamingju með 1000 km múrinn og gangi ykkur vel með hina tvo :-) þetta hljómar ótrúlega létt og líður enn hraðar en maður bjóst við. Auðvelt að segja þetta hérna heima........... :-)

Ykkar Hildur.

Hildur (IP-tala skráð) 19.6.2010 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband