18.6.2010 | 05:36
Að lifa í frumskóginum
Heildarvegalengd: 2980 km
Hjólað í dag: 80 km
Hvert hjólað: Yachats OR - Reedsport OR
Í heild hjólað: 934 km
Þættinum hefur borist bréf. Spurt er hvernig gangi að sofa í tjaldi innan um bjarndýr, eiturslögur og önnur dýr merkurinnar. Því er fljotsvarað. Ég hef ekki hugmynd um hvernig gengur að sofa innan um þessa óáran. Í þetta ferðalag var annars farið með þá hugmyndafræði að rétt væri að lifa eins og landnemarnir - í gamladags tjaldi með varðeld á kvöldin og helst að veiða sér til matar. Hingað til hefur enginn matur verið veiddur nema af bakkanum hjá McDonalds. Hingað til hefur enginn þvegið sér í ánni, heldur notaðar dýrindis franskar sápur í bandarskum mótelum og hingað til hefur hefur enginn þurft að dúða sig í teppi til að halda á sér hita á frostköldum nóttum. Við tókum vissulega svefnpoka með okkur út - en þeir hafa fyrst og fremst verið notaðir ofan á dúnmjúkum rúmum. Ástæður þessa eru í sjálfu sér einfaldar. Við erum á hjólunum 7-8 tíma á dag og í lok hvers dags er lítil orka eftir til að stunda frumskógaleiki. Sé ekki að það sé að breytast í bráð. Dagurinn í dag var annars góður til hjólreiða. Glampandi sól og 15C - ótrúlegt útsýni yfir hvítar strendur Oregon á milli þess sem öflugar brekkur fengu okkur til að svitna. Fórum í gegnum Florence (ekki á Ítalíu) þar sem risastórar sandöldur eru orðnar meirháttar túristaatvinnuvegur. Heimamenn leigja út fjórhjól og önnur farartæki til túrista sem spæna upp sandinn. Svo þarf ég að skrifa sérgrein síðar um áhuga Bandaríkjamanna á vitum - tugir þeirra stóðu við úrsýnispall í dag og góndu með aðdáunarsvip á einn slíkan í fjarlægð. Gefnar eru út heilu bækurnar um vita Oregon og seldur er aðgangur að þeim - eitthvað sem Vita og hafnamálastofnun heima ætti að hugleiða.
Athugasemdir
Gaman að fylgjast með ykkur. Gangi ykkur allt í haginn.
Kveðja Sigrún og Maggi
Sigrún Hauksdóttir (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 19:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.