Færsluflokkur: Bloggar

Djöflaskriður á þjóðhátíð

 

Heildarvegalengd:   2980 km

Hjólað í dag:                 51 km

Hvert hjólað:            San Francisco CA - Half Moon Bay CA

Hjólað í heild:           1920 km

 

Heilir tveir dagar í fríi í San Francisco - maður var farinn að sakna hjólsins! Að velja 4. júlí, sjálfan þjóðhátíðardaginn, til að setjast á stálfákinn að nýju var hins vegar kannski ekki besta hugmyndin. Umferðin út úr borginni var talsverð og jókst eftir því sem sunnar dró.  Fórum meðfram ströndinni í gegnum Daly City og Pacifica og þar voru bæði vegir og strendur pakkaðar af fólki sem vildi njóta dagsins úti við. Nokkur hliðarvindur var í dag og gerði það hjólreiðarnar aðeins erfiðari. Bandaríkjamen hafa þann ágæta sið að nefna alla varhugaverða vegi eftir djöflinum - fyrr í ferðinni forum við um Sjö djöfla veginn og í dag var komið að Djöflaskriðum - Devil´s slide - fyrir sunnan Granada. Þetta er í raun snarbrött fjallshlíð með þröngum vegi - umferðin var mikil um skriðurnar, engar axlir til að hjóla á og við því í stöðugri hættu. Til að gera hlutina verri er mjög msvindasamt þarna uppi og komu miklar hviður - þannig urðum við í eitt skiptið að fara af hjólum og leiða þau stuttan spöl til að koma hreinlega í veg fyrir að fjúka ofan í fjöru! Þetta hafðist þó allt saman og við komum til Hálfmánaflóa - Half Moon Bay síðdegis. Lengri hjóladagur framundan á morgun.


Komið til blómaborgarinnar

 

Heildarvegalengd:    2980 km

Hjólað í dag:                104 km

Hvert hjólað:          Valley Ford CA - San Francisco CA

Hjólað í heild:            1869 km

 

Það var óneitanlega góð tilfinning að hjóla yfir Golden Gate brúna til San Francisco klukkan hálf sjö í kvöld, tæpum 10 tímum eftir að við lögðum af stað frá Valley Ford í morgun. Dagurinn skiptist nokkuð í tvennt - fyrri hlutinn var ferðalag um hæðótt sveitahéruð og þrönga vegi meðfram Tomales flóanum fyrir norðan San Francisco. Talsvert hvasst var sem gerði hjólreiðar erfiðari. Lítið var um þorp þessa fyrstu 50 kílómetra. Þetta breyttist þegar við komum til Fairfax. Eftir það var nánst samfelld byggð næstu 40-50 kílómetrana til borgarinnar. Við þræddum litla vegi og héldum okkur frá aðalvegum - fengum þannig að skoða fallega bæi á leiðinni. Ótrúlegur fjöldi hjólreiðamanna var á þessum kafla og voru þeir flestir klæddir eins og atvinnumenn og ekki voru hjólin síðri! Langur hjóla og göngustígur var síðustu 10 km í gegnum Sausalito - sem hlýtur að vera einn fallegasti strandbær Bandaríkjanna. Sjálf Golden Gate brúin var upplifun og þegar komið var yfir var það stórborgin sjálf. Komum upp á mótel á hinu fræga Lombard stræti um kl 19 - og það verður að segjast eins og er að þetta er fyrsta og eina mótelið sem ég hef gist á sem er með sauna klefa í herberginu - ekki bara lítinn plastklefa- heldur alvöru viðarklefa með glerhurðum!!! Set kannski inn myndir af þessu dæmi á morgun. Ætlum að taka 2-3 daga hvíld hér í San Francisco áður en síðasti áfangi ferðarinnar hefst.

 

026.jpg

 

 

 

 

  Við Golden Gate brúna í kvöld

 

 

 

 

 

 

 

 

005.jpg

 

 

  Við fallega krambúð í Stewarts Point

 

 

 

 

 

 

015_1005477.jpg

 

 

 

 Fyrir norðan Bodega Bay

 

 

 


75 ára á fullu

 

Heildarvegalengd:     2980 km

Hjólað í dag:               92 km

Hvert hjólað:           Gualala CA - Valley Ford CA

Hjólað í heild:           1765 km

 

Nei, ég er ekki að tala um sjálfan mig í fyrirsögn, heldur náungann sem sat á barnum á Valley Ford hótelinu í samnefndum smábæ í kvöld. Hann var að hjóla ásamt tveimur félögum sínum frá Portland, Oregon til San Francisco - alls um 1000 km. Konan hans fylgdi síðan með í bíl til öryggis. Þetta var kvikur og glaðvær náungi og leit ekki út fyrir að vera deginum eldri en sextugur. Það er greinilega allt hægt með smá vilja.

Ferðin frá Gualala til Valley Ford einkenndist af miklum vindi, bröttum hlíðum meðfram sjónum og talsvert mörgum hæðum. Vindurinn var sem betur fer í bakið. Sunnan við Gualala tóku við sumarhúsabyggðið meðfram Kyrrahafinu og síðan brattar hlíðar frá og með Fort Ross þar sem nauðsynlegt var að hjóla varlega, enda engar axlir til að hjóla á og því þurfti að deila veginum með bílum. Útsýnið var hins vegar stórfenglegt. Stundum fannst manni eins og maður væri staddur í vestfirskum fjallahlíðum, stundum í Skorradal og stundum eins verið væri að hjóla meðfram austfirskri strandlengju - fjölbreytnin var mikil. Mjög lítið var um byggð á þessari rúmlega 90 km löngu leið, stoppuðum í fallegri krambúð í Stewarts Point og síðan örstutt í Bodega Bay áður en við héldum áfram til Valley Ford - sem er örþorp með um 100 íbúa uppi í sveit. Hér hefur ungur maður um þrítugt byggt upp hótel af miklum myndarskap. Trompið er hins vegar veitingasalurinn hjá honum - ótrúlegur matur. Það er bara opið þar fjögur kvöld í viku og í gærkvöldi var troðfullt - held að allir þorpsbúar hafi verið það samakomnir. Tvær konur á níræðisaldri sátu við barinn, borðuðu makkarónur í osti og vldu endilega vita hvort ég læsi ekki sögur Stieg Larssons - þær væru æðislegar!

 

 

 


Súper Maríó bróðir gerist kvensamur

 

Heildarvegalengd:   2980 km

Hjólað í dag:                 94 km

Hvert hjólað:          Fort Bragg CA - Guelala CA

Hjólað í heild:           1673 km

 

"Mikið ertu falleg," drafaði Súper Maríó bróðirinn í fimmta sinn í kvöld um leið og hann leit á Lindu. "Skilur hún annars nokkuð hvað ég er að segja," sagði hann svo við mig. Súper Maríó, sem ég kalla svo vegna þess að hann líktist samnefndri teiknimyndahetju, var í raun pizzuveitingastaðaeigandi í Gualala - smábæ með um 150 manns. Hann hafði komið víða við á langri lífsleið - barðist í Víetnam stríðinu og starfaði svo lengi fyrir Bandaríkjaher við hönnun á geimstöðvum, auk þess em hann kom að smíði hins risavaxna Hubber sjónauka. Eftir farsælan starfsferil snéri hann til Guelala og opnaði pizzastað. Núna var hann þakinn hveiti, rallhálfur á bak við afgreiðsluborið og skipaði ungri stelpu fyrir verkum. Klukkan 8 í kvöld var hann búinn að fá nóg og skipaði henni að loka staðnum. Hún var ekki nógu snögg að loka hurðinni og inn snaraðist brosmild kona sem sagði með afsaknadi svip að hún væri með sjö svanga munna fyrir utan. Víetnam stríðsmaðurinn var hinn fúlasti og urraði að hann væri að loka. Afgreiðslustelpan fékk að búa til nokkrar pizzur í refsingarskyni á meðan húsbóndinn hélt áfram að tala við mig. 

Leiðin í dag var annars þægileg og falleg. Við hjóluðum meðfram ströndinni þessa 94 kílómetra og komum við í nokkrum smábæjum. Elk var þeirra fallegastur, gömul velviðhaldin hús við nánast einu götu bæjarins. Veðrið var fullkomið, glampandi sól og 20C. Kaliforníuströnd skartaði sínu fegursta og kílómetrarnir flugu hjá. Ekki skemmdi fyrir að lítið var um langar brekkur. Síðdegis hjóluðum við fram úr hjólamanni á langferð sem hafði slitið keðjuna og var ekki viss um hvernig ætti að festa hana aftur. Hann gat lært af hjólunum okkar og þakkaði okkur vel fyrir.

 

050.jpg

 

 

 

   Við Mendocino í morgun


Býr Nói Albínói hér?

 

Heildarvegalengd:      2980 km

Hjólað í dag:                    84 km

Hvert hjólað:            Leggett CA - Fort Bragg CA

Hjólað í heild:              1579 km

 

Það var ljóst frá byrjun að þetta yrði ekki auðveldur dagur. Hann hófst á hinni alræmdu Leggett brekku sem hafði skelft okkur í marga daga. Það var ekki nóg með að fólk talaði um hana með óttablandinni virðingu heldur var líka horft á okkur með vorkunnsemi. Konan í afgreiðslunni á Best Western í Garberville tilkynnti að við yrðum að fá besta herbergið á hótelinu þar sem við þyrftum á öllum okkar kröftum að halda fyrir hæðina góðu. Vertinn á Pegs Inn - frægu kaffihúsi úti í miðjum skógi rétt hjá hæðinni - afgreiddi Lindu og Helenu með súkkulaðiköku í morgun með þeim orðum að eftir að hafa snætt hana yrði hæðin lítið mál. Hæðin sjálf eru m 2000 feta há - byrjaði rólega og við hjóluðum áfram 20 - 30 km án þess að verða sérstaklega vör við hana. Svo var draumurinn úti - brekkan byrjaði og það tok okkur 2-3 klukkustundir að paufast upp hana í 32C hita og glampandi sól. Útsýnið var ekki mikið þar sem tréin huldu dali og Kyrrahafið fyrir neðan okkur. Þegar toppnum var náð var brekkan niður niður að sjó hinum megin þægileg og allt af fljótfarin.

Eina þorpið á þessari 84 km leið í dag var Westport en þar búa um 100 hræður. Ævagömul búð - eða frekar sjoppa - er við aðalgötuna. Þar var mun meira úrval af vínum og bjór en öðrum drykkjum eins og vera ber í öllum beti búðum. Eldri kona, sem leit út eins og umrenningur, kom inn í sjoppuna. Hún spurði hvaðan við værum. Augun stækkuðu þegar hún heyrði svarið og loks stundi hún út úr sér: " Nói." Við kváðum og hún sagðist hafa verið að horfa á myndina um Nóa Albínóa. Bara vegna þess að hún hafði verið svo forvitin um landið.

Skammt frá Westport voru fallegar fjörur og þar safnaðist fólk saman í góða veðrinu til að veiða skeldýr. Gaman að stoppa og horfa á það. " Ótrúlegt," kallaði ungur maður, sem leit út fyrir að vera þýskur nýnasisti, þegar hann heyrði að við vorum búin að hjóla frá Kanada. Hann kallaði á félaga sína sem horfðu á okkur eins og geimverur.  Skammt frá voru önnur ungmenni búin að koma sér vel fyrir aftan á pallbíl með tunnu af bjór. Leit vel út eftir 60 km puð á hjólinu í hitanum.

Komum til Fort Bragg eftir að hafa hjólað í um 9 klukkustundir. Þetta er ekki herstöð þó að nafnið gefi það til kynna - heldur 7000 manna bær - sá langstærsti á stóru svæði. Upphaflega var þetta þó herstöð - sett upp til að berjast við índíána á svæðinu. Tökum frídag hér.


Komin í Hallormsstað!

 

Heildarvegalengd:   2980 km

Hjólað í dag:             27 km

Hvert hjólað:         Garberville CA - Leggett CA

Hjólað í heild:         1495 km

 

Það er eins og við séum komin í Hallormstað -eða nánar tiltekið í Atlavík á góðu sumarkvöldi.  Erum úti í skógi, allt fullt af tjöldum og risastórum 500 fm húsbílum. Fyrir utan kofann okkar í kvöld er að byrja varðeldur með karókí keppni. Nú vantar Óskar Örn Garðarsson á svæðið...Við ákváðum að skipta hinni stóru Leggett brekku í tvennt - tókum fyrri hlutann í dag og hinn síðari og erfiðari í fyrramálið. Lítið er um gistingu á þessum slóðum og því urðum við að sættast á litla 27 km í dag - sem var í sjálfu sér í lagi miðað við  31C hita og glampandi sól. Ekki beint brekkuveður. Gistingin er í hálfgerðu móteli á tjaldsvæði sem er troðfullt af fjölskyldufólki, ca 10 km frá þorpinu Leggett. Það er fallegt hérna en karóki tónlistin sem er byrjuð að óma er ekki jafn falleg...


Breiðstræti risanna

 

Heildarvegalengd:   2980 km

Hjólað í dag:                 87 km

Hvert hjólað:         Fortuna CA - Garberville CA

Hjólað í heild:           1468 km

 

Breiðstræti risanna - eða Avenue of the Giants - heitir gata sem fetar sig um rauðviðarskógana á um 50 km kafla milli Scotia og Garberville. Dagurinn í gær fór að mestu í að hjóla þessa leið í fallegu veðri. Við fórum inn í landið sem þýddi aðeins eitt - hitastigið rauk upp með hverjum kílómetranum sem leið. Byrjaði í um 14C í Fortuna og var komið í um 32C þegar við komum til Garberville. Smá andvari gerði þetta þó þægilegt. Leiðin var að mestu á flatlendi nema rétt í lokin þegar stór brekka kom rétt áður en við komum til Garberville. Um kvöldið hlustuðum við á rammfalskan fiðluleikara á litlum veitingasta. Fyrir utan sat útigangsmaður sem nýtti sér veitingahúsið til að ná í hnífapör. Við hlið hans stóð gráskeggjaður maður á hjóli og spjallaði - þar var kominn náungi sem við hittum á mótelinu góða hjá hláturmildu konunni í Orick fyrir nokkrum dögum, en þar var hann áhugasamur um hjólin okkar. Svona gengur fólk aftur í þessari ferð - varla líður sá dagur að við hittum ekki unga hjólaparið sem við hittum fyrst í Hoodsport fyrir hálfum mánuði - í fyrradag voru þau að skoða ostabúð í litlum smábænum Lolita þegar við fórum hjá. Svona er lífið fullt af tilviljunum.


Löggilt gamalmenni!

   

Heildarvegalengd:   2980 km

Hjólað í dag:             34 km

Hvert hjólað:         Eureka CA - Fortuna CA

Hjólað í heild:         1381 km

 

"Ertu með afslátt vegna aðilar að AAA (sama og FÍB) eða sem eldri borgari?" spurði stúlkan í afgreiðslunni á Comfort Inn mótelinu í Fortuna núna sídegis og horfði íhugandi á mig. Ég svaraði neitandi en hún gafst ekki upp. " Hvenær verður maður eldri borgari og hvenær ekki," sagði hún svo spekingslega. " Er ekki tilvalið að miða við fimmtugsaldurinn?" Ég andvarpaði og sagði að það vantaði rúma viku upp á hjá mér. Hún lét sem hún heyrði ekki í mér og slengdi 10% afslætti á reikninginn. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef fengið eldri borgara afslátt á nokkrum hlut og tilfinningarnar voru blendnar.

Dagleiðin var stutt. Ástæðan var m.a. sú að við höfðum ákveðið að senda ca 10 kg af farangrinum heim með pósti til að létta á okkur - morguninn fór í að redda góðum pappakössum í stórmarkaði í Eureka og pakka og eiga við póstinn - verðið var svipað og fyrir flugmiða frá Íslandi til London!

Við vorum ekki lengi að hjóla til Fortuna og enn einu sinni kynntumst við örlæti Bandaríkjamanna. Á einum skógarvegi stoppaði kona bíl sinn rétt hjá okkur og spurði hvort okkur vantaði ekki gistingu. Hún bjó á bóndabæ skammt frá og vildi endilega að við gistum hjá henni frítt í nótt. Við vorum ekki  búin að hjóla nema í ca 15 km þegar þetta góða boð kom og því urðum við að hafna því. Á morgun er lengri dagleið og síðan kemur hæsta brekka ferðarinnar, fjallvegurinn upp frá bænum Leggert  - um 2000 feta hár. Fræðibækur segja að meðfram þessum fjallvegi megi sjá búnað og bein hjólreiðamanna sem hafa gefist upp á leiðinni. Efast ekki um að það sé rétt... 

 

022_1003284.jpg

 

 

 Rauðviðarskógarnir sem við erum að hjóla um þessa  dagana

 

 

 

 

 

036.jpg

 

 

  Tréin eru svo stór að Linda og hjól hverfa inn í ræturnar!


Hláturmilda húsfreyjan í Orick

 

Heildarvegalengd:  2980 km

Hjólað í dag:                 71 km

Hvert hjólað:        Orick, CA - Eureka, CA

Hjólað í heild:           1347 km

 

Það var mikil blessun að yfirgefa Orick og þar með Palms mótelið og hláturmildu húsfreyjuna sem þar réð ríkjum. Konan sú tók hlæjandi á móti okkur þegar við innrituðum okkur, hló í öðru hverju orði meðan hún talaði og virtist vinna um 20 tíma á sólarhring -Dagurinn byrjaði hjá henni kl 05 á morgna þegar hún opnaði veitingastaðinn sem hún rak sem hliðarpródukt frá mótelinu, svo framreiddi hún morgunverð fyrir gesti og gangandi næstu klukkutíma eða allt þar til hún vippaði sér yfir í næsta herbergi þar sem móttaka mótelsins var - þar var hún fram eftir degi eða þar til hún fór aftur inn á veitingastaðinn til að elda og framreiða kvöldverð fram eftir kvöldi.  Síðan svaf hún í lítilli kompu inn af lobbíinu. Er nema von að hún hafi átt erfitt með að halda aftur af hlátrinum. Mótelið sjálft líktist mest Mexíkósku móteli frá 1930 í útliti og á miðju bílastæðinu var risastór sundlaug sem greinilega hafði verið reist á góðæristímabilinu - þar hafði ekki sést vatnsdropi í áratugi.

Pedalarnir voru vægast sagt þungir í morgun og ekki bætti ástandið að þoka var yfir öllu og hiti um 12C. Það var greinilegt að brekkur gærdagsins sátu alvarlega í hjólagörpunum. Fyrstu 20 km voru langir og ætluðu aldrei að líða - minnstu brekkur voru kvöl og það var þreytusuð í lofti í kringum hádegið. Stoppuðum í hádeginu í McKinleyville og hittum þar nokkra eldri herramenn sem voru með reiðhjólin sín uppi á toppi á bílum sínum. Þeir sögðust vera á leiðinni frá Vancouver til Palm Springs. Einn þeirra sagðist vera frá síðarnefnda bænum og sagði að það hvarflaði ekki að sér að hjóla í þessum kulda og því væru þeir með fylgdarmenn á bílum til að bjarga sér - félagi hans tók ekki svo djúipt í árinni. Hádegismatuirnn hressti okkur við og næstu 50 km flugu hjá. Við komum til Eureka, stærsta bæjarins í norður Kaliforníu um kl 16. Þetta er eins og að koma í stórborg - þó að stærðin sé á við Hafnarfjörð. Framundan er nokkuð snúinn kafli með 2000 feta brekku, þeirri hæstu í ferðinni, og lítilli gistingu á um 200 km kafla - dagleiðirnar verða því nokkuð misjafnar - stundum stuttar og  aðra daga lengri.

 

006_1003017.jpg

 

 

 

  Við fylkismörk Kaliforníu og Oregon

 

 

 

 

 

032_1003018.jpg

 

 

 

 

 

 

  Í Rauðviðarskógum Kaliforníu

 

 

 

 

 

102.jpg


Erfitt...

 

Heildarvegalengd:     2980 km

Hjólað í dag:               66 km

Hvert hjólað:           Crescent City CA - Orick CA

Hjólað í heild:           1276 km

 

Þetta var einn erfiðasti dagur ferðarinnar til þessa. Ástæðan var fyrst og fremst sú að við þurftum að hjóla næst hæstu og þriðju hæstu brekkur allrar strandarinnar - á einum og sama deginum. Fyrri brekkan, og sú hærri, byrjaði nánast strax og við komum út úr Crescent City í morgun. Hún var 15 km á lengd og stanslaust upp í móti - vorum um tvo tíma að skrölta þetta. Fegurðin bætti erfiðið upp. Við erum nefnilega komn í rauðviðarskóga Kaliforníu - þá stærstu og elstu í heiminum. Hæstu tréin eru um 2000 ára gömul, eru talsvert hærri en Hallgrímskirkja og bolirnir eru allt að sjö metrar á þvermál. Set myndir inn á morgun þegar ég kemst í betra netsamband.  Það var ótrúlega gaman að hjóla um þessa þéttu skóga og þeir eru ekki búnir því næstu dagar verða svipaðir. Vorum rétt að byrja að jafna okkur á brekku númer eitt þegar sú síðari byrjaði í dag. Það tók því eilífðar tíma að komast þessa 66 km og nánst engin þorp voru á leiðinni. Umferðin var þó mikil og vegirnir þröngir þannig að hjólamenn eru í sífelldri lífshættu. Komum undir kvöld til Orick - íbúafjöldi um 600. Þetta hlýtur að vera eitt mesta eymdarþorp á vesturströnd Bandaríkjanna. Hér er nákvæmlega ekkert nema mótelið sem við erum á - sem hefur sennilega ekkert breyst í 500 ár. Á stóru skilti fyrir utan mótelið er helstu trompunum flaggað - litasjónvarp og sími á staðnum, stendur þar stórum stöfum. Það verður ekki betra...

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband