La Frontera Mexicana!

 

047.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildarvegalengd:     2933 km

Hjólað í dag:                   95 km

Hvert hjólað:            Carlsbad CA - landamæri Mexíkó

Hjólað í heild:             2933 km

 

 La Frontera Mexicana, 2933 kilometers al sur de Vancouver, British Columbia - eða "landamæri Mexíkó, 2933 kílómetrum fyrir sunnan Vancouver, Bresku Kolumbíu. " 

Þetta tókst! Komum að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna núna laust fyrir kvöldmat. Við lögðum upp í þessa ferð þann 3 júní sl frá Vancouver í Kanada. Við vorum í um 6 vikur á leiðinni - tókum frídag á ca 5 daga fresti. Að meðaltali hjóluðum við um 85 km á dag. Þetta var erfitt en gífurlega skemmtilegt - engir tveir dagar voru eins. Hér eru nokkrar staðreyndir:

Lengsta dagleið:    152 km 

Stysta dagleið:        27 km

Hjólað á dag:          Yfirleitt 8-10 tíma með stoppum. Lengst 14 tímar.

Biluðu hjólin?          Aldrei. Tvisvar sprakk á dekki - á sama degi undir lokin.

Gisting?                  Ódýr mótel

Veður:                    Rigning í byrjun. Hiti 15-20C fyrstu vikurnar. Síðan sól og 30C

 

Þessi síðasti dagur hjólaferðarinnar var góður.  Mikið af hjólreiðamönnum í Carlsbad, Encinitas og Solana Beach í morgunsárið - og skiptu þeir hundruðum. Allar baðstrendur voru pakkaðar kl 09 í morgun. Vorum komin til La Jolla í norðurhluta San Diego um hádegisbil og fórum þar meðfram ströndinni. Mikil mannþröng hægði mikið á okkur og við vorum því lengi að fara í gegnum borgina. Fórum í miðborgina og tókum ferju þaðan yfir á Coronado eyju - fallegrar eyju rétt fyrir utan. Þaðan var hjólað á hjólastíg næstu 20 km þar til við komum loks til San Ysidro við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Hér er töluð meiri spænska en enska - beint á móti má sjá hæðótta Mexíkó. Landamærin eru vandlega girt af, enda er verið að herða allt erfirlit til muna þessa dagana. Síðast í nótt fannst tómur bátur við strönd Bandaríkjamegin - talið er að 20 Mexíkóar hafi verið í honum og náð að komast inn í landið með ólöglegum hætti. Þetta verður síðasta bloggfærsla okkar - við komum heim á föstudagskvöld. Þökkum öllum þeim sem hafa fylgst með og hafa sent okkur kveðjur á þessum síðum. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Af sljóleika og hermönnum

Heildarvegalengd:    2920 km

Hjólað í dag:                  96 km

Hvert hjólað:           Newport Beach CA - Carlsbad CA

Hjólað í heild:            2838 km

 

Þegar fólk á níræðisaldri hjólar fram úr manni þrátt fyrir góða tilburði þá veit maður að eitthvað er að. Og þegar aðrir hjólreiðamenn stoppa til að spyrja hvaðan við séum að koma og hvert við séum að fara - og við munum hvorugt - þá veit maður að eitthvað er að. Þannig má segja að fólk verði eftir rúma 2800 kílómetra. Þetta getur hreinlega orðið vandræðalegt þegar best lætur.

Dagurinn var annars fínn. Sól og hiti, nóg af fallegum yfirfullum ströndum, eitt ekkert sérstaklega fallegt kjarnorkuver og ferð í gegnum stóra herstöð. Fyrst í morgun voru það strendurnar, meðal annars Laguna Beach, en samnefndir sjónvarpsþættir þóttu flottir í eina tíð. Þröngir hjólreiðastígar tóku síðan við áður en komið var að stóru kjarnorkuveri þar sem hjólað var framhjá. Enn einn hjólastígurinn tók við næstu 10 kílómetrana og síðan var það Pendleton herstöðin. Hjólafólk má ekki hjóla á hraðbrautum (interstate vegum) í þessu landi og þar sem Pendleton herstöðin náði yfir stórt svæði allt í kringum hraðbrautina þá var ekki annað að gera en að fara í gegnum sjálfa stöðina. Við vorum auðvitað stoppuð við hliðið af vopnuðum hermönnum sem kröfðust þess að sjá vegabréfin, en um leið og þeir sáu að við vorum frá landinu þar sem Gnarrenburg er þá slepptu þeir okkur í gegn. Herstöðin sjálf var vonbrigði. Engir vígalegir hermenn sjáanlegir, hvað þá skriðdrekar eða önnur stríðstól. Við hjóluðum um 15 km í sjálfri stöðinni og minnti landslagið helst á eyðimörk. Það var heitt og vorum við fegin að losna út og komast til borgarinnar Oceanside - þar fórum við meðfram ströndinni áður en haldið var til Carlsbad, sem er enn einn baðstrandarbærinn. Á morgun eru tímamót - þá stormum við í gegnum San Diego og til landamæra Mexíkó þar sem þessi hjólreiðaferð endar. Tæpir 3000 km á tæpum einum og hálfum mánuði. Nánar um það og uppgjör á morgun.


Slysin gera ekki boð á undan sér...

Heildarvegalengd:  2920 km

Hjólað í dag:                98 km

Hvert hjólað:       Santa Monica CA - Newport Beach CA

Hjólað í heild:          2742 km

 

Veðurfréttamaðurinn í sjónavarpinu tilkynnti í morgun að best væri fyrir heimamenn í Los Angeles að halda sig innadyra í dag - enda væri spáð mesta hita ársins, um 40C. Við fórum að sjálfsögðu ekki eftir þeim ráðleggingum, enda ekki heimamenn. Dagurinn fór í að komast í gegnum Los Angeles. Fyrstu 30 kílómetrana eða svo fórum við á hjólabraut á miðri ströndinni - framhjá Santa Monica ströndinni, Venica ströndinni, Manhattan ströndinni og Hermosa ströndinni. Það var andvari af hafi þannig að þetta var bærilegt. Við Retondo ströndina neyddumst við til að hjóla inn í borgina næstu 25 kílómetrana eða svo. Við höfðum á orði að það væri ekki svo erfitt að hjóla í gegnum Los Angeles....en við hefðum betur sleppt því. Helena var að fara yfir á umferðarþungum gatnamótum þegar hún festi annað dekkið á hjólinu í sporvagnaförum sem liggja víða niður úr malbikinu. Hún datt til hliðar, beint á veginn og fékk hjólið yfir sig. Fyrir einhverja mikla mildi var ökumaður sem fór óvenju hægt fyrir aftan hana og hann gat með naumindum sveigt til hliðar og afstýrt stórslysi. Starfsmaður á veitingastað hinum megin við götuna kom hlaupandi yfir til að athuga hvort allt væri í lagi. Hann sagði að fyrir nokkum árum hefði annar hjólareiðamaður fest dekk á sama stað og dottið. Stór trukkur fór yfir höfuðið á honum og þar þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Helena var lemstruð eftir þetta, fann mikið til í fætinum og var blá og marin. Af alkunnu örlæti hjólreiðamanna fékk hún heilar 15 mínútur til að jafna sig og síðan var haldið áfram. Leiðin lá eftir ca 10 km löngum hjólreiðastíg niður á Long Beach - eða Langasand. Þar tók annar stígur við allt þar til við vorum formlega komin út fyrir borgarmörkin. Hjólað var meðfram endalausum hvítum ströndum með óteljandi sólbrúnum Kaliforníubúum allt þar til við komum til Newport Beach síðdegis. Þetta gekk frekar hægt í dag, enda erfitt að hjóla í gengum það flæmi sem Los Angeles er - maður þarf endalaust að stoppa og passa sig á að hjóla ekki einhvern niður - eða lenda í því sjálfur...Og svona að lokum - heildarvegalengdin hefur verið endurskoðuð miðað við nýjustu gervihnattaupplýsingar. 


Tvisvar á sama degi!! Er það ekki fullmikið?

Heildarvegalengd:    2980 km

Hjólað í dag:                151 km

Hvert hjólað:          Santa Barbara CA - Santa Monica, Los Angeles CA

Hjólað í heild:            2644 km

 

Úff. Hvar skal byrja. Dagurinn var langur.....lagt af stað kl 07 í morgun frá Santa Barbara og komið til Los Angeles kl 20 í kvöld. Hitinn var aðeins minni en í gær en samt var mjög heitt og sólin skein sem aldrei fyrr. Fórum meðfram gullfallegri ströndinni í Santa Barbara í morgunskímunni og síðan í gegnum Summerland og Carpentania, tvo litla bæi við ströndina. Landslagið hér í suður Kaliforníu er ólíkt því sem er norðar - minna um há tré en meira um þurran jarðveg og lágvaxinn gróður. Víða með ströndinni ná klettarnir langt fram. Mikið er um fólk með risavaxna húsbíla sína á þessum slóðum og er þeim gjarnan lagt í endalausum röðum meðfram ströndinni. Við komum í tvo fallega bæi rétt fyrir hádegi, Ventura og Oxnard. Hjóluðum þar meðfram ströndinni og í Ventura sprakk óvænt á hjólinu hjá Helenu - í fyrsta skipti sem dekk springur í allri ferðinni. Við vorum stödd í miðju ibúðahverfi þegar þetta gerðist og var ekki annað að gera en að bjarga málunum.  Áfram hélt ferðin eftir þessa töf og næstu 50 kílómetrana eða svo var hjólað meðfram ægifagurri ströndinni áður en komið var til Malibu síðdegis. Þó að Hollywood stjörnur haldi þar gjarnan til gaf engin þeirra sig fram við okkur. Áfram var haldið meðfram strandlengjunni og til Santa Monica, sem er úthverfi Los Angeles. Komum þangað um kl 19 - mjög hægt gekk að hjóla inn í sjálfa borgina vegna umferðar og tók það okkur klukkutíma að komast örfáa kílómetra. Og þá gerðist það ótrúlega - aftur sprakk á dekki!!!! Núna var það hjá mér og þar sem við vorum á miðju breiðstræti í Los Angeles og aðeins 500 metrar á hótelið þá nennti ég ekki að fara að standa í dekkjaviðgerðum á því augnabliki og leiddi hjólið síðustu metrana. Við vorum hálf rænulaus af þreytu þegar við komum á hótelið og ekki annað að gera en að hringja eftir Dominos pizzu og fá hana senda fyrir svefninn.

021_1009510.jpg

 

 

 

 Gert við hjólið í Ventura

 

 

 

 

026_1009511.jpg

 

 

 

 

 Helena í Malibu

 

 

 

 

 

030.jpg

 

 

 

 Þreytt í Santa Monica, LA í kvöld

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Some like it hot!

Heildarvegalengd:     2980 km

Hjólað í dag:                   94 km

Hvert hjólað:            Lompoc CA - Santa Barbara CA

Hjólað í heild:             2493 km

 

Það var heitt í dag - heitasti dagurinn okkar í ferðinni til þessa. Við fundum það um leið og við stigum á hjólin í Lompoc í morgun og hitinn átti bara eftir að aukast með hækkandi sól. Fyrstu 35 kílómetrarnir voru um fáfarinn dal sem kenndur er við Lompoc. Landslagið minnti helst á eyðimörk - greinilegt að þarna hafði ekki rignt lengi. Kortið sagði okkur að 1000 feta brekka væri þarna en í ljós kom að öll leiðin um dalinn var hægt og bítandi upp á við þannig að við fundum ekki svo mikið fyrir aukinni hæð. Vatnabirgðirnar fóru hins vegar þverrandi því á allri þessari leið var ekki svo mikið sem einn kofi. Eftir 40 km fórum við aftur að sjónum og umferðin jókst til muna en hitastigið lækkaði lítið - var um 30C. Engin þjónusta eða hús heldur næstu 70 km. Það var ekki fyrr en við komum í úthverfi Santa Barbara sem hægt var að kaupa drykk og ekki vanþörf á. Fórum fallegan hjólastíg ca 20 km í gegnum borgina, framhjá Kalíforníuháskóla, meðfram ströndinni og síðan upp í miðborg. Þetta var gullfalleg leið, skreytt pálmatrjám og öðrum gróðri. Santa Barbara er með fallegri borgum á vesturströnd Bandaríkjanna, það er ekki spurning. Þufum að vakna snemma á morgun - langur dagur framundan.

009_1008705.jpg

 

 

 

 

  Á hjólastígnum í Santa Barbara


Nálgumst leiðarlok

Heildarvegalengd:    2980 km

Hjólað í dag:                  82 km

Hvert hjólað:           Pismo Beach CA - Lompoc CA

Hjólað í heild:            2399 km

 

Yfirgáfum KOA tjaldstæðið við Pismo Beach snemma í morgun - John fór síðdegis í gær. Hann ætlaði að keyra í alla nótt til Arizona þar sem hann þurfti að skila bílaleigubílnum sem hann var á fyrir hádegi. Pismo Beach er fallegur bær við ströndina en þegar komið var út fyrir hann var eins og við værum komin í annað land. Eintómir Mexíkóar hvert sem litið var með tilheyrandi tötralegum húsum. Borðuðum hádgismat í bænum Guadalupe og þar hékk þjóðfáni Mexíkó við hún - í þeim bæ virtust vera tómir innflytjendur. Lítið er um trjágróður á þessum slóðum - mikið um engi, ræktað land og jafnvel eyðimerkursvæði, a.m.k þegar litið var til fjalla. Fórum inn í land frá ströndinni og það var eins og við manninn mælt - hitastigið hækkaði verulega og fór í um 30C þegar við paufuðumst upp fjall eitt áður en við fórum niður í dalinn þar sem Lompoc er. Þetta er bær með um 40 þúsund íbúa. Erum að nálgast Los Angeles svæðið, enda fer hjóladögunum óðum fækkandi. Enn allt samkvæmt áætlun.

001_1008517.jpg

 

 Bústaðurinn sem við leigðum hjá KOA í Pismo Beach. John var sofandi í bílum fyrir framan þegar myndin var tekin - teppið á framrúðunni var vegna hitans.

 

 

 

 

 

011.jpg

 

 

Helena horfir af fjallinu fyrir ofan Lompoc niður að bænum

 

 

 

 

 

 

 

 


Rauði kúrekaklúturinn

Heildarvegalengd:    2980 km

Hjólað í dag:                  78 km

Hvert hjólað:           San Simeon CA - Pismo Beach CA

Hjólað í heild:            2317 km

 

Það var mesta furða hvað við vorum hress í morgun eftir gærdaginn. Til stóð að hitta gamlan skiptinemabróðir minn, John Hodges, sem hafði lagt af stað frá Phoenix, Arizona í gærmorgun til að keyra þá tæpu 1000 km leið hingað til þess eins að hitta okkur í sólarhing. Það er mikið á sig lagt! Heyrði í John þegar við vorum í Morro Bay í morgun og sagðist hann myndu leita okkur uppi. Okkur fannst það fjarstæðukennt að hann myndi finna okkur á þeim litlu og þröngu sveitavegum sem við hjólum gjarnan eftir - en höfðum rangt fyrir okkur. John hafði tilkynnt að hann myndi hengja rauðan kúrekaklút utan á bílinn sinn svo við þekktum hann. Það stóð heima - skammt frá San Lois Osbispo hjóluðum við fram á rauða klútinn. Gamli maðurinn (John er nú einu sinni ári eldri en ég) var þá búinn að taka frá bústað í KOA (Kampgrounds of America) fyrir okkur næstu tvær nætur. KOA er eins og öfgafull útgáfa af íslenskum tjaldsvæðum - hér eru 300-400 fermetra húsbílar í hundruðatali, pakkaðir saman þannig að örfáir sentimetrar eru á milli hvers bíls. Og hér er öllu tjaldað - fyrir utan einn húsbílinn er búið að setja upp pálmatré úr plasti með jólaljósum á. Verður ekki flottara! Í kvöld var grillað af bandarískum sið...

033_1007872.jpg

 

 

 

Ykkar einlægur og John þegar hann fann okkur í  óbyggðunum í dag!


Hjólað í 13 tíma.....

Heildarvegalengd:  2980 km

Hjólað í dag:              152 km

Hvert hjólað:          Carmel CA - San Simeon CA

Hjólað í heild:          2239 km

 

Hvað getur maður sagt eftir að hafa hjólað í 13 klukkustundir í dag. Við urðum eiginlega innlyksa í Carmel í gær - fundum enga gistingu í eðlilegri hjólafjarlægð á eðlilegu verði - einn mótelhaldarinn á Big Sur svæðinu gerði mér tilboð upp á um 100 þúsund krónur fyrir nóttina - "Þetta er með 15% afslætti," fullyrti hann í símann og var hissa á að ég skyldi vilja hugsa málið. Big Sur svæðið suður af Carmel er eitt vinsælasta sumarleyfissvæðiðí Kaliforníu og það skýrði þessa fáránlegu verðlagninu. Allt var uppselt langt fram í tímann. Að lokum ákváðum við að hjóla framhjá öllu þessu veseni og halda beint til San  Simeon - 152 km leið. Ekkert okkar hafði nokkurn tímann hjólað slíka vegalengd og því vorum að reyna eitthvað sem við vorum ekki of viss um að við hreinlega gætum. Vöknuðum því kl 05:30 í morgun og vorum komin út upp úr 06 til að eiga möguleika á að ná til San Simeon fyrir myrkur. Leiðin í dag var ægifögur en um leið erfið. Mikið um brekkur þar sem vegurinn hlykkjaðist meðfram Kyrrahafinu. Þetta gekk voum framar og um kl 19 í kvöld sáum við kastalann sem William Randolph Hearst fjölmiðlakóngur byggði í upphafi síðustu aldar (sögusvið Hallar Minninganna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson) gnæfa yfir San Simeon þorpinu. Kastalinn sá er gríðarmikið mannvirki sem er opinn almenningi í dag - þar er allt eins og þegar Hearst var upp á sitt besta - ólýsanlegt mannvirki sem allir ættu að sjá. Við vorum nokkuð þreytt við komuna en á morgun verður ekkert gefið eftir - lagt af stað klukkan átta en óvæntur gestur mun bíða okkar í lok þess dags.

hearst_castle_picture_inside.jpg

 

 

 Hearst kastali í San Simeon


Steinbeck og Eastwood

 

Heildarvegalengd:     2980 km

Hjólað í dag:               82 km  

Hvert hjólað:            Santa Cruz CA - Carmel CA

Hjólað í heild:           2087 km

 

Það má segja að þssi dagur hafi verið tileinkaður tveimur snillingum - John Steinbeck og Clint Eastwood. Fyrri hluta hjólaleiðarinnar átti Steinbeck. Þá var hjólað um Monterey flóann - framhjá risavöxnum ökrum þar sem farandverkamenn í þúsundatali voru að tína jarðarber. Hér gerðust margar af þekktustu sögum Steinbecks - eins og Þrúgur reiðinnar og Mýs og menn. Þá voru farandverkamennirnir fátækir bandaríkjamenn - núna eru það spænskumælandi innflytjendur sem vinna þessi sömu störf. Fátt hefur breyst á þessum hundrað árum - nema að núna mátti sjá útikamra úr plasti um alla akra og útvarpið glumdi á fullu þar sem spænskumælandi þulur öskraði sig hásan yfir leik Spánverja og Þjóðverja á HM. Skammt frá var Salinas, bærinn þar sem Steinbeck bjó. 

Í lok dags komum við til Carmel, lítils bæjar með um 5000 íbúa. Þetta er merkilegur bær fyrir margra hluta sakir. Hér var Clint Eastwood bæjarstjóri fyrir nokkrum árum. Hann býr enn skammt fyrir ofan Carmel og á veitingahús í bænum. Í dag er Carmel einn af þekktari ferðamannastöðum Bandaríkjanna. Hér eru skyndibitastaðir bannaðir svo og umferðarljós. Neonskilti eru líka bönnuð svo fátt eitt sé nefnt. Í Carmel eru fleiri staðir sem selja málverk en í flestum stórborgum Bandaríkjanna. Þegar við komum hér fyrir 4 árum voru allar götur fullar af Hummer jeppum - stöðutákni. Í dag var engan slíkan að sjá - svona er lífið í kjölfar kreppu! Carmel er samt ein naf fallegri bæjum Bandaríkjanna og ef maður svipast vel um þá er aldrei að vita nema Eastwood sjálfur beri fyrir augu.... Best að hafa þau opin.

039.jpg

 

  Unnið á jarðarberjaökrunum í dag


Nektarströndin sem gleymdist!

 

Heildarvegalengd:   2980 km

Hjólað í dag:                 85 km

Hvert hjólað:          Half Moon Bay CA - Santa Cruz CA

Hjólað í heild:           2005 km

 

Hann bograði yfir hjólið sitt þegar við hjóluðum framhjá í morgun. Skömmu síðar náði hann okkur og veifaði þegar hann fór framhjá - þetta var skeggjaður maður á áttræðisaldri á langferð. Töskurnar á hjólinu hans báru þess vitni. Nokkru síðar stoppuðum við til að borða nesti og hann birtist þá og settist hjá okkur. Gamli maðurinn reyndist vera frá San Diego. Hann var í ca 10 daga ferð niður með ströndinni - dóttir hans hafði keyrt hann upp að Tomales flóa fyrir ofan San Francisco og síðan ætlaði hann að hjóla sem lengst á þessum tíu dögum þar til hún kæmi aftur og næði í hann. Hann reyndist vera þaulvanur hjólamaður. Hafði oft hjólað meðfram Kyrrahafsströndinni. " Þetta verður erfiðara með hverju árinu," sagði hann og glotti. " Það gerir aldurinn." Fyrir löngu hafði hann hjólað þvert yfir Bandaríkin á 5 mánuðum. "Þetta er það besta sem ég haf gert á ævinni," sagði hann með sannfæringarkrafti. Hann benti okkur á kortinu á nektarströnd sem var framundan, en þó ótrúlega megi virðast þá gleymdi ég að kanna málið nánar þegar til kom! Trúi því hver sem trúa vill. Nokkru síðar kvaddi hann - gamli maðurinn ætlaði að dvelja um nóttina á hosteli við lítinn vita við Pigeon Point. Við héldum hins vegar áfram næstu 50 kílómetrana til Santa Cruz. Leiðin var nokkuð bein meðfram ströndinni - það eina sem gerði okkur lífið leitt í dag var vindurinn sem aldrei þessu vant var beint í fangið á okkur. Nánast engin þorp voru á þessari 85 km leið - aðeins ein tómleg bensínstöð þar sem afgreiðslumaðurinn var upptekinn við að fylgjast með Hollendingum tryggja sér sæti í úrslitum HM. Nokkuð var af fólki við fjölmargar litlar strendur á leiðinni þrátt fyrir að hitastigið hafi varla verið meira en 15C - auk vindsins. Santa Cruz er hins vegar þokkalega stór borg - hér búa ca 60 þúsund manns. Á morgun ætlum við síðan að heimsækja Clint Eastwood... 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband